150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[20:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Já, það hefur borið mjög á því varðandi lagafrumvörp sem nú er verið að keyra í gegnum þingið. Hv. þm. Halldóra Mogensen hefur verið óþreytandi að benda á þá annmarka hjá hæstv. ríkisstjórn að gleyma þessum mikla lagabálki sem við samþykktum á Alþingi í fyrra, þ.e. persónuverndarlögunum. Það á að rýna öll frumvörp með þessum gleraugum, sérstaklega þegar um er að ræða viðkvæmar persónulegar upplýsingar. Því miður þá virðist persónuverndarrýnari ríkisstjórnarinnar a.m.k. ekki ná að anna öllum þeim fjölda frumvarpa sem koma frá þeim hæstv. ráðherrum sem eru á málefnasviði hv. velferðarnefndar. Þetta virðist vera gegnumgangandi annmarki á frumvörpum sem koma frá hæstv. félags- og barnamálaráðherra annars vegar og hæstv. heilbrigðisráðherra hins vegar, þ.e. þau hafa ekki verið skoðuð með tilliti til persónuverndarsjónarmiða. Þegar um er að ræða svona upplýsingaöflun, eins og verið er að veita Vinnumálastofnun, þá held ég að við hljótum að gera þá lágmarkskröfu að Persónuvernd sé spurð hvort þetta sé eðlilegt.

Ég vil kannski spyrja hæstv. ráðherra: Finnst honum það koma til álita að sett verði þau skilyrði að umsækjandi veiti upplýst samþykki fyrir slíkri gagnaöflun?