150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum hefur verið mikið til umræðu í samfélaginu upp á síðkastið. Það er eðlilegt í ljósi þeirrar stöðu að tæplega 30% vinnandi fólks eru á atvinnuleysisskrá. Það er mikil áskorun að takast á við þau vandamál og öll þau vandamál sem slíku atvinnuleysi fylgir. Ég er þakklátur fyrir mikil viðbrögð við þeim fréttum sem hafa komið sunnan að, fjölmiðlar hafa fjallað um stöðuna og Alþingi hefur boðað sérstakar umræður um stöðuna á Suðurnesjum í næstu viku. Það er gott fyrir okkur að upplýsa almenning og okkur sjálf um stöðuna. Það er mikilvægur þáttur í svona atvinnuleysi að upplýsa þá sem atvinnulausir verða um þau tækifæri sem þeir hafa. Það tekur langan tíma að byggja upp atvinnulíf og tækifærin vaxa ekki á hverju strái, þau koma heldur ekki til okkar eftir pöntunum eða fyrir fram ákveðnum formlegum leiðum. Sá sem ekki spyr eða leitar eftir lausnum fær ekkert svar. Aðgerðaleysið hefur alvarlegar afleiðingar. Það er ekkert sjálfgefið. Við verðum að leggja okkur fram um að grípa þau tækifæri sem bjóðast og eitthvað annað er ekki í boði.

Virðulegi forseti. Flugstöðin mun aftur fyllast af fólki og ferðamenn flykkjast til Íslands. Suðurnesin eigi inni nóg af ónotuðum tækifærum til frekari landvinninga í ferðaþjónustu. Þau tækifæri liggja í Reykjanes jarðvangi og náttúru svæðisins. Það eru líka tækifæri í öflugu atvinnulífi á Suðurnesjum. Það þarf að tryggja raforku á svæðið til að taka á móti þeim tækifærum. Flugvöllurinn og Helguvík eru einstakir seglar á ferðamennsku og norðurslóðaverkefni framtíðarinnar. Það er kallað eftir betri aðstöðu og byggingu á þeim slóðum. Tugmilljarða verkefni sem koma Suðurnesjum á kortið sem lykiláfangastaðir þeirra sem sækja norðurslóðir í framtíðinni og aðsetur björgunarmiðstöðvar fyrir norðursvæðið allt. (Forseti hringir.) En ekkert af þessu verður að veruleika ef menn ætla að bíða eftir formlegum óskum.