150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Því miður er það svo að við munum minnast ársins 2020 ekki bara fyrir að vera árið sem við unnum Eurovision, sem var reyndar aldrei haldið, heldur ársins sem umbylti samfélaginu okkar, ársins sem byrjaði með gríðarlega sterkri stöðu ríkissjóðs en mun ekki enda eins. En það er ýmislegt jákvætt sem hægt er að taka út úr þessu öllu saman. Þetta er líka árið sem starfsfólki Landspítala – háskólasjúkrahúss tókst að umbylta starfsemi sinni á einni nóttu, sem sýnir hversu megnug við erum að breyta og bregðast við þegar á þarf að halda. Þetta er líka árið þegar landsmenn fóru að hreyfa sig sem aldrei fyrr og nú seljast hjól, gönguskór og fjallaskíði sem aldrei fyrr, og er það gott og ég vona að landinn haldi því áfram. En ég vona líka að þetta verði árið sem við nýtum til að ferðast um landið og njóta náttúruperlanna sem mörg okkar, alla vega sú sem hér stendur, hefur oft forðast vegna mikillar mannmergðar og fjölda útlendinga og nú er svo sannarlega tækifæri til að nýta það. Við eigum von á inneign frá ríkisstjórninni og samtökum aðila í ferðaþjónustu þannig að ég hvet landsmenn alla til að nýta tækifærið og ferðast.

Hv. þm. Ásmundur Friðriksson kom inn á Reykjanesið áðan og þær ögranir sem fólk þar stendur frammi fyrir. Ég ferðaðist nýverið um Reykjanes og átti þar yndislega helgi og það er sannarlega hægt að mæla með því að landsmenn taki ferð þangað þó að hún liggi ekki út í Leifsstöð. Ég vona líka að þetta sé árið sem við notum tækifærið til að tryggja fjölbreyttara atvinnulíf og samfélag sem tekur mið af þörfum mannsins en líka á þörfum umhverfisins.