150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Þessa dagana erum við hér í þinginu að fást við enn einn skammtinn af frumvörpum sem fela í sér viðbrögð við því ástandi sem við erum að glíma við í kjölfar Covid-19 faraldursins. Við erum í meginatriðum, held ég, sammála um markmið og leiðir en auðvitað kann okkur að greina á um útfærslur í einstökum atriðum. Ég hygg hins vegar að okkur hafi lánast tiltölulega vel í þeim skrefum sem við höfum stigið á undanförnum tveimur mánuðum að takast í sameiningu á við þann vanda sem upp hefur komið og ég vona að við berum gæfu til þess að halda því áfram.

Hér er um að ræða gríðarlega mikilvægar aðgerðir. Um er að ræða aðgerðir sem hafa þann tilgang að lágmarka það tjón sem verður í atvinnulífinu, efnahagslífinu og samfélaginu í heild vegna atburða sem við getum kallað óviðráðanleg ytri atvik sem hrinda þessu af stað og eru ekki einstök fyrir Ísland heldur eru auðvitað í löndunum í kringum okkur og jafnvel erfiðari viðureignar í sumum tilvikum.

Við þurfum hins vegar líka að huga að því hvernig við ætlum að byggja okkur upp að nýju og ég hugsa að eftir því sem líður á árið færist verkefni meira frá því að slökkva elda og í það að byggja upp að nýju. Vonandi verður samstaðan líka góð í þessu. Það er ekki óeðlilegt að okkur greini á um ýmsa hluti í þessu í sambandi við útfærslu og það er heldur ekki óeðlilegt þó að við þurfum að taka til endurskoðunar einstakar ákvarðanir sem við höfum tekið áður. En ég bið hv. þingmenn að hafa í huga að við erum að fást við, (Forseti hringir.) svo maður noti nú vinsælt líkingamál, fordæmalausar aðstæður og (Forseti hringir.) þurfum í því skyni að grípa til ýmissa fordæmalausra aðgerða og takast á við það með hraða en þó af vandvirkni.