150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Heimsfaraldurinn vegna Covid-19 hefur leitt margt í ljós sem við sáum kannski ekki fyrir, bæði brotalamir í alls konar kerfum en líka kosti. Ein af þeim greinum sem hefur farið illa út úr faraldrinum, og ber þar í bakkafullan lækinn, er ferðaþjónustan og innan hennar er stór starfsgrein sem eru leiðsögumenn sem hafa farið einstaklega illa út úr þessari kreppu. Meginþorri þeirra er nefnilega ekki með fast ráðningarsamband við neinn og það þrátt fyrir að margir þeirra fái megnið af tekjum sínum greitt sem launamenn og séu þar með í rauninni ekki verktakar heldur launamenn í hinu svokallaða harkhagkerfi.

Þetta leiðir óneitanlega hugann að því hversu mikilvægt ráðningarsamband getur verið fyrir launamenn og hversu mikilvæg réttindi fylgja slíku sambandi. Í harkhagkerfinu eru auðvitað fleiri starfsgreinar áberandi, til að mynda margar greinar listamanna, en í rauninni má segja að sú staða sem þarna er komin upp segi okkur að það getur verið varasamt, leyfi ég mér að segja, að byggja upp lykilgrein í hagkerfinu á ótraustu ráðningarsambandi á milli vinnuveitenda og launamanns. Það ætti að vera verkefni annars vegar leiðsögumanna og hins vegar Samtaka atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar yfirleitt að finna leiðir til að bæta úr því þannig að við getum notað það ástand sem nú hefur komið upp til að kenna okkur hvernig við getum gert betur fyrir þessa hópa vinnandi fólks.