150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er ástæða fyrir því að Ísland getur alið meira en 300.000 manns. Það er ekki sjálfgefið og sést það á sögunni. Ástæðan samanstendur af tveimur hlutum, annars vegar vísindum og hins vegar alþjóðasamstarfi. Það er samspil þessara tveggja þátta sem gerir Ísland að Íslandi í dag. Það er samspil þessara þátta sem gerir Ísland ríkt, þótt við verðum kannski ekki rík á næstunni. Við höfum verið mjög lánsöm og mjög rík síðustu áratugina á Íslandi. Það er vísindum að þakka sem og alþjóðasamstarfinu. Ég vil ekki gera lítið úr mikilvægi þess að styðja við íslenska tungu. Ég geri ekki lítið úr víkingasögunum. Ég las nokkrar nýlega og sumar eru hlægilegri en aðrar.

Það eru þó ekki þeir hlutir sem koma okkur áfram í lífinu, virðulegur forseti, eins stolt og þakklát og við getum verið fyrir þá, heldur vísindin og alþjóðasamstarfið, í stuttu máli útlendingar og útlenskar hugmyndir sem koma hingað og við tökum að okkur og sníðum að sjálfsögðu eftir þörfum, eins og vísindamenn vita.

Mér finnst mjög mikilvægt núna þegar við stöndum í ærnum björgunarleiðangri sem verður langur og erfiður að við missum ekki sjónar á því að þetta eru þau leiðarljós sem við verðum að hafa í huga þegar við lítum til framtíðar, ekki bara til skamms tíma heldur sérstaklega til langs tíma. Þegar þessi krísa er liðin hjá, og hún mun líða hjá, þurfum við aftur að takast á við loftslagsbreytingar, eins og við þurfum reyndar að gera núna. Það er ærið verkefni, það er líka neyðarástand og aftur er lausnin sú sama, ekki taumlaust sjálfshól, ekki að berja sér á brjóst og karpa um það í kosningabaráttu hver sé kjarkaðri og hugaðri en hinn — það verða vísindi og alþjóðasamstarf.