150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

almannatryggingar.

437. mál
[14:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um breytingu á lögum um hálfan lífeyri. Ég var algjörlega á móti fyrri lögunum sem sett voru um málið á sínum tíma, aðallega vegna þess þá voru þeir annmarkar á að þau voru eiginlega bara fyrir þá efnameiri. Þetta stóð ekki þeim til boða sem höfðu lægstar tekjur og fengu minnst. Þeir fengu eingöngu bætur frá Tryggingastofnun ríkisins.

Breytingin sem fram kemur í þessu frumvarpi er alveg frábær og stórbætir stöðuna. Núna býðst þeim sem mest þurfa á því að halda og hafa lægstu tekjurnar að minnka við sig vinnu um helming. Hér er tækifæri til að vinna hálfa vinnu, fá 50% frá lífeyrissjóði og 50% frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta er tekjutengt og byrjar að skerðast við 325.000 kr. frítekjumark og greiðslur Tryggingastofnunar hverfa við 600.000 kr.

Eins og kerfið er núna er það mjög grimmúðlegt gagnvart launafólki, þ.e. hinar gígantísku skerðingar sem eru hlutfall ellilífeyris. Gerð var krafa hjá ASÍ um að lækka skerðinguna úr 45% í 30%. Ég tek undir þá kröfu. Við eigum að stefna að því leynt og ljóst að taka út skerðingar af atvinnutekjum vegna þess að þær eru það vitlausasta sem við höfum fundið upp á. Því til rökstuðnings vil ég benda á að í frumvarpinu er talað um að kostnaðarliðurinn við frumvarpið geti numið 100–300 milljónum. Það sem er kannski furðulegast við útreikning á þeim kostnaði er að hann er bara reiknaður út sem kostnaður til að greiða út frá Tryggingastofnun. En skattar eru ekki inni í þessu, ekki skatttengd gjöld, og það að viðkomandi tekur hálfan lífeyri í staðinn fyrir fullan. Ef við snúum þessu við er það eiginlega stórgróði fyrir ríkissjóð að gera þetta svona, fyrir utan það að við gleymum líka að reikna inn að þarna gefum við eldri borgurum tækifæri til að vinna lengur, þeim sem það geta og vilja. Fyrir suma skiptir það gífurlegu máli upp á heilsufar og annað og hefur þar af leiðandi minni kostnað í för með sér fyrir heilbrigðiskerfið. Við eigum því að reikna þetta kerfi allt upp á nýtt. Og þess vegna hefur líka frumvarp Flokks fólksins um að hætta að skerða atvinnutekjur, sem er mjög nátengt þessu máli, sýnt sig að vera gróði fyrir ríkið, það er búið að reikna það út. Það er gróði fyrir einstaklinginn og fyrir þjóðfélagið í leiðinni.

Við eigum að fara að hugsa aðeins út fyrir kassann, ekki festa okkur alltaf í þessum skerðingum. Við erum búin að festa okkur í einhverjum skerðingum og hugsun um að það þurfi að skerða og refsa fólki fyrir að reyna að bjarga sér. Ég er sannfærður um að það er það versta sem við getum gert í svona málum vegna þess að við vitum að ef við hvetjum fólk til að vinna þá koma tekjur á móti, skatttekjur og gjöld af tekjunum, það verður þjóðfélaginu til góða og fólk heldur heilsu lengur. Það hefur áhrif á allt þjóðfélagið, og sérstaklega þá sem vilja og geta unnið. En á sama tíma, og það segir sig eiginlega sjálft, getum við tryggt að þeir sem ekki geta unnið og þurfa að fara á ellilífeyri fái mannsæmandi ellilífeyri, og geti lifað með reisn á þeim ellilífeyri. Því miður er ákveðinn hópur sem getur það ekki, það er sá hópur sem hefur litlar eða engar tekjur úr lífeyrissjóði. Þar er stærsti hlutinn konur, sem er auðvitað til háborinnar skammar vegna þess að það er eiginlega verið að refsa þeim fyrir að vera heima með börn og annað. Það er mjög undarleg refsing og eiginlega bara fáránleg. Þess vegna fagna ég frumvarpinu. Ég fagna því aðallega á þeim forsendum að þetta er fyrsta skrefið í átt að því að við hugsum út fyrir kassann og byrjum að taka á þeim fáránleika að banna fólki að vinna og refsa því grimmilega fyrir það.