150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:33]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um viðkvæmt efni og umdeilt. Þetta snertir margar fjölskyldur í landinu. Hér er lagt til að hlúa að afskiptum hópi sem telur jafnvel um 700 manns á Íslandi. Neyslurými styðjast við hugmyndafræði skaðaminnkunar en í henni felst að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum neyslu um leið og horft er til þess að einstaklingar fái þá heilbrigðis- og félagslegu þjónustu sem þeir kjósa sjálfir.

Hér er eitt lítið skref stigið í átt til afglæpavæðingar, að horft sé til þess að um heilbrigðismál sé að ræða en ekki afbrotamál þótt hugsanlega sé um ólögleg vímuefni að ræða.

Við vinnum áfram ötullega að forvörnum og það er fráleitt að með þessari lagasetningu sé verið að ýta undir neyslu fíkniefna. Hér er fetuð braut skynsemi og raunsæis, kíkirinn er ekki lengur settur fyrir blinda augað. Þau viðhorf endurspeglast í þessu frumvarpi að líta beri á veruleikann eins og hann er en kannski ekki eins og við vildum að hann væri.

Ég þakka fyrir djarft skref heilbrigðisráðherra og staðfestu. Þetta er tímamótamál.