150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:36]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég greiði atkvæði með þessu máli með mannúðar- og heilbrigðissjónarmið að leiðarljósi. Í þeim löndum þar sem tekin hafa verið skref í þessa átt, m.a. í Danmörku, kemur fram að reynslan sé jákvæð, m.a. í að 90% minna sé af sprautunálum á almannafæri og svo meira hreinlæti og fagmennsku gagnvart þessum hópi sjúklinga.

Reykjavíkurborg hefur kallað eftir því að ríkið komi að þessum málum á þann hátt að fagmennska og hreinlæti sé haft í fyrirrúmi. Ég hefði viljað sjá heilbrigðisráðherra afgreiða samhliða þessu máli aðgengi að meðferðarstöðvum þar sem biðlistarnir eru í sögulegu hámarki. Hluti af þeim sem þar eru eru einmitt í þeim hópi sem þetta frumvarp fjallar um.

Miðflokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að greiða aðgengi að fíknimeðferðum sem vonandi fær greiða afgreiðslu hjá hinu háa Alþingi og skjóta afgreiðslu hjá heilbrigðisráðherra.