150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta mál, en mér finnst það engu að síður býsna erfitt. Mér finnst mjög vont að hugsa til þess að það sé löglegt að koma á einhvern stað og sprauta í sig eiturlyfi. Mér finnst það ekki góð tilhugsun. Þegar öllu er á botninn hvolft held ég samt sem áður að það sé rétt skref sem við stígum hérna í dag með að samþykkja þetta því að þetta er besta lausnin fyrir þá sem eru svo langt leiddir.

Aftur á móti var ég í ræðu með þá tillögu að setja þetta á herðar sveitarfélögunum. Með þessu frumvarpi er lagt til að hæstv. heilbrigðisráðherra leggi til fjármagn inn í þennan málaflokk. Þetta er í mínum huga heilbrigðismál og við þurfum alltaf að fara varlega þegar við blöndum saman verkefnum ríkis og sveitarfélaga. Það verður að vera alveg skýrt hvar kostnaðurinn er greiddur. Í þessu tilfelli er þetta heilbrigðiskostnaður og hann á að koma úr sjóðum ríkisins.