150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[16:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé engin deila um það í þessu máli að það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið á undanförnum árum gekk ekki til framtíðar. Það má svo sem færa rök fyrir því að ég hefði átt að koma inn í þessa umræðu á fyrri stigum, það er ekki hægt að gera það öllu seinna en núna, en mér heyrist á öllu að umræður um það hvort skynsamlegt væri að snúa til þess fyrirkomulags sem var áður en stjórnsýslunefndin var sett á laggirnar hafi ekki komið til neinnar sérstakrar umræðu. Þetta eru undantekningarmál og ég vara við því að þetta sé sama tilhneiging núna á dómstólasviðinu og er að gerast svo víða í kerfinu, að aukin yfirbygging, aukið bákn, sé það sem við sitjum uppi með. Ég hefði gjarnan viljað sjá tekna upplýsta umræðu um það og afstöðu til þess hvort fyrra fyrirkomulag hefði mögulega verið betra þar sem dómstólar tóku afstöðu til hvers og eins máls eftir því sem það kom upp.

Ég mun ekki greiða atkvæði í þessu máli.