150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

almannatryggingar.

437. mál
[16:08]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessu frumvarpi, sérstaklega vegna þess að það leysir af hólmi gömlu lögin sem voru úrelt að því leyti til að þau voru eingöngu fyrir þá efnameiri. Núna er þetta eiginlega að stærstum hluta fyrir þá sem hafa lágan lífeyri.

Hitt er það að þegar þetta frumvarp verður komið í gagnið mun það sýna fram á að þetta er ekki kostnaður heldur gróði fyrir þá sem nýta sér þessa vinnu og gróði fyrir samfélagið í heild vegna þess að það segir sig sjálft að inn koma skatttekjur og út fara minni greiðslur frá Tryggingastofnun. Þetta er þjóðhagslega hagkvæmt á allan hátt.