150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu.

[15:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Störfin eru flest hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum á Íslandi og þess vegna get ég tekið undir með hv. þingmanni að verði sú breyting vegna heimsfaraldursins að þau gefi hlutfallslega eftir á móti stærri fyrirtækjunum væri það mjög slæmt. Það eru líkur til þess að við það myndi hreinlega fækka störfum í landinu. Meðal annars af þeirri ástæðu fór þingflokkur Sjálfstæðisflokksins um landið fyrr á þessu ári, sérstaklega til þess að sækja heim lítil fyrirtæki um allt land. Ég hygg að þegar upp var staðið höfum við sótt heim í kringum 100 fyrirtæki. Það sem við fengum skilaboð um í þessum heimsóknum var fjölbreytilegt, t.d. að menn vilja fá að spreyta sig meira án opinberra afskipta. Reglubyrðin komst oft til tals og launatengdu gjöldin sem við höfum verið að lækka í þessari ríkisstjórn með því að taka tryggingagjaldið niður í smáum skrefum. Við skulum líka hafa í huga að þegar rætt er um stór fyrirtæki sem greiða skatta til samfélagsins og skipta verulega miklu máli í bland við lítil fyrirtæki voru þau líka í eina tíð lítil. Lítil fyrirtæki eru sum hver í vexti og vilja taka meira til sín og við eigum ekki að berjast gegn því.

Þegar rætt er um ferðaþjónustuna er hárrétt að við sjáum, sérstaklega í dreifðari byggðum landsins, að ferðaþjónustufyrirtæki sem eru lítil að vöxtum eru mjög áberandi í hópi þeirra sem koma einstaklega illa undan áhrifum kórónuveirufaraldursins. Það er ástæða til að fylgjast með því hvernig við getum hjálpað þeim í gegnum þessa tíma. Ég tel að mörg þau úrræði ríkisstjórnarinnar sem hafa komið fyrir þingið (Forseti hringir.) gagnist þeim mjög vel.