150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

leigufélög, rekstur spilakassa.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í fréttum víða er fasteignafélag sakað um gífurlegan hrottaskap þar sem leiga hefur hækkað um nærri 0,5 milljónir á fyrirtæki sem er lokað í Covid að tilmælum stjórnvalda. Stærsti hlutinn af þessari hækkun, 400.000 kr., er vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs. 400.000 á mánuði vegna hækkunar vísitölu neysluverðs eru 5 milljónir á ári. Þetta fyrirtæki er kannski að sækja um styrk og brúarlán og ég spyr: Á styrkur og brúarlán að renna í gegnum vasa þeirra og beint í vasa fasteignafélags sem er með bullandi gróðafíkn?

Síðan ætla ég að fara út í aðra fíkn, spilafíknina. Á sama tíma og 85% þjóðarinnar segja að það eigi ekki að vera með spilakassa spyr ég: Er eðlilegt að Rauði kross Íslands, Landsbjörg, SÁÁ, og Háskóli Íslands séu drifin áfram af spilakössum? Nú er komið í ljós að meðan kassarnir voru lokaðir stórbatnaði hagur spilafíkla. Það eru örfáir einstaklingar sem halda öllu þessu uppi, um 10–12 milljörðum og af því eru ekki nema 40–50% gróði, hitt er allt kostnaður sem fer til útlanda. Er ekki eðlilegt að ríkissjóður semji við þessa aðila og sjái til þess að úr ríkissjóði komi greiðslur frekar en að gera út á örfáa fíkla sem leggja allt undir, m.a. heimili, og eru þar af leiðandi berskjaldaðir og eiga ekki á nokkurn hátt að láta svona félög, sem eru nauðsynleg, verða háð spilafíklum sem halda þeim uppi?