150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

leigufélög, rekstur spilakassa.

[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er dálítið erfitt að bregðast við einstaka dæmum um hækkun leigu. Ég hygg að dæmið sem hv. þingmaður vísar til sé skemmtistaðurinn B5 við Bankastræti sem hefur farið í fjölmiðla og rætt um að leigan hafi hækkað. Úr hverju hækkaði hún hins vegar og hvar stóð hún í samanburði við aðra leigu í næstu húsum? Ég hef engar forsendur til að fjalla um þetta mál en ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni, manni þykir mjög einkennilegt að fyrirtæki sem hafa þurft að loka vegna fyrirmæla stjórnvalda skuli þurfa að sæta slíkum viðskiptakjörum á þessum tímum. Ég get tekið undir það en hef að öðru leyti engar forsendur til að fjalla um þetta mál.

Varðandi spilakassana er það hárrétt hjá hv. þingmanni að það er algjör hörmung hversu margir þurfa að glíma við spilafíkn. Það er alveg gild spurning hversu stór þáttur í vanda þeirra opnu spilakassarnir eru. Þar er stóra spurningin: Hvert annað leita spilafíklar ef ekki í spilakassana? Hv. þingmaður veltir hér upp að alls konar góðgerðasamtök og aðrir aðilar sem vinna að brýnum samfélagslegum verkefnum skuli fjármagna sig með þessum hætti. Þá er auðvelt að benda á ýmislegt annað sem er á jaðri spilakassanna, happdrætti og lottó og hvað þetta allt saman er. Ég er talsmaður þess að við lokum ekki með öllu á þetta en spilakassarnir eru svo sem ekki (Forseti hringir.) þannig úr garði gerðir að ég ætli að fara að mæla þeim sérstaklega bót. Við þurfum að finna einhvern eðlilegan meðalveg í þessum efnum.