150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

leigufélög, rekstur spilakassa.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að hv. þingmaður kom mér dálítið í opna skjöldu með því að mæla svona sterkt gegn spilasölunum en tala svo um að opna fyrir spilarýmin. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, ég held að það sé nokkuð til í því hjá hv. þingmanni að þar væri vissulega auðveldara að hafa strangt eftirlit með því hverjir fengju að taka þátt o.s.frv. Stóra spurningin sem eftir situr er sú hvort hægt sé að hjálpa spilafíklum með einhverju slíku breyttu fyrirkomulagi. Ég er ekki nógu vel að mér í þessu til að fullyrða neitt um það. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt, við þurfum að gera betur til að styðja við þá sem fást við þessa fíkn og leggja mögulega í því sambandi aukna ábyrgð á þá sem eru með slíka sali opna. Svo er alltaf mjög erfitt að finna nákvæmlega réttu útfærsluna á þessu, m.a. vegna þess að tæknin hefur opnað nýjar leiðir fyrir þá sem glíma við spilafíkn (Forseti hringir.) til að fá útrás fyrir hana þar, ef svo mætti að orði komast.