150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að gera þegar höfuðborgarsamningurinn, -samkomulagið eða -sáttmálinn var gerður en ég vek einfaldlega athygli á því að í þessum samningi eru mjög sterkir fyrirvarar um aðkomu Alþingis. Þeir skipta verulega miklu máli vegna þess að þar er vísað til þess sem Alþingi mun ákveða í samgönguáætlun og hefur þannig alveg forráð á því í hvaða röð menn munu forgangsraða verkefnum. Síðan er í öðru lagi hægt að nefna fyrirvarann um fjárheimildir til að standa við samningsskuldbindingar ríkisins eða þessa yfirlýsingu sem þetta er, frekar en samningur. Fjárheimildir til að fjármagna samkomulagið eru á forræði Alþingis. Má ég nefna í þriðja lagi að það er fyrirvari í þessari yfirlýsingu um aðra þá fjármögnun sem rætt er um, að þar séu enn ófrágengin mál, t.d. að ef menn færu út í sérstaka gjaldtöku til að fjármagna framkvæmdirnar myndi það aldrei gerast nema með frumvarpi sem lagt yrði fyrir þingið og afgreitt hér. Málið er í raun og veru enn að uppistöðu til á forræði og undir stjórn Alþingis.

Varðandi þessi tilteknu gatnamót skal ég bara taka það fram að í undirbúningsviðræðum kom fram að til væru útfærðar hugmyndir að þessum gatnamótum og að þar hefði verið um að ræða mislæg gatnamót en þetta er nákvæmlega dæmi um það sem ég vakti athygli á áðan, að þegar upp er staðið er það Alþingis að hafa stjórn á því hvernig samkomulagið verður um framkvæmd.