150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

grásleppuveiði og strandveiðar.

[15:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Byggðir landsins hafa orðið fyrir miklu fjárhagshöggi vegna Covid, ferðamennirnir koma ekki. Mig langar því annars vegar til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra um stöðu smábátasjómanna, um stöðu sjávarbyggða, sem geta ekki tekið þátt í grásleppuveiðunum, og hins vegar um strandveiðarnar. Ráðherra vill meina að þetta sé allt saman misskilningur en smábátasjómenn, margir hverjir, benda á að það séu færri þorskígildi sem þeir geta veitt núna. Í besta falli er um að ræða óbreytt ástand, en margir vilja meina að þetta sé verra en í fyrra. Ráðherra hefur síðan varðandi grásleppuna leyft aðila á einu svæði að fara af stað og fara umfram það sem Hafrannsóknastofnun hefur sagt að sé sjálfbært. Þetta væri hægt annars staðar líka ef pólitískur vilji væri fyrir því.

Ráðherra hefur í aðgerðapakka sínum við Covid, sem hann auglýsti 27. mars, gefið aukið svigrúm til að flytja aflaheimildir milli ára. Það væri mögulegt með strandveiðarnar, færa það á þetta ár sem ekki var veitt í fyrra. Ráðherra hefur sagt, á fundum sem hann kom á fyrir atvinnuveganefnd síðast, að hann hafi ekki lagaheimild til að gera það. Hann getur fengið lagaheimild hér á Alþingi til að gera það, að færa þau 12–14% sem voru ekki veidd í fyrra í strandveiðunum yfir á þetta ár og gefa þannig í. Við sjáum að byggðir landsins verða fyrir virkilega alvarlegu höggi vegna Covid og nú kemur annað högg vegna þess að grásleppuveiðum er það illa stjórnað að fullt af aðilum sem ætluðu að fara að veiða er bannað að fara að veiða. Þetta væri hægt að laga og ráðherra hefur heimild til þess í stað þess að fara niður eða halda sjó varðandi strandveiðarnar. Ráðherra getur komið hingað og sótt sér lagaheimild til að færa það sem ekki var veitt á síðasta ári yfir á þetta ár, sem er sjálfbær nálgun. Ráðherra ætlar að færa 25% af því sem stóru útgerðirnar eru ekki að veiða í ár fram á næsta ár, og það þýðir fram í september út af því að þá hefst næsta fiskveiðiár. (Forseti hringir.) Ráðherra hefur tækifæri til að gefa í fyrir byggðir landsins vegna Covid, fyrir smærri aðilana. Hvað ætlar hann að gera í þessu?