150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera bannað að brugga heima hjá sér. Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að það eigi að selja áfengi í matvörubúðum eða í almennum verslunum. Ég er þeirrar skoðunar. Tvískinnungurinn liggur því ekki hjá mér. En ég skil ekki hv. þingmann. Ef hann getur fundið einhvern þingmann einhvers staðar sem að hans mati hefur skoðun sem er mótsagnakennd fer hann alltaf á þann hátt í að réttlæta það þegar hann sjálfur er á móti í frelsismálum.

Það er ekki bara þetta mál; ég kom hér upp í andsvar vegna þess að ég bjóst ekki við öðru svari eins og ég fór yfir í fyrra andsvari mínu. Getur hv. þingmaður ekki bara stutt frelsið, alla vega fengið þingflokksmeðlimi sína til að styðja frelsi þegar upp á því er stungið hér, t.d. af þingmönnum Pírata? Hvað er svona agalegt við það? Hvers vegna þarf fyrst að koma áfengi í búðir áður en hægt er að hætta að refsa fólki fyrir að vera með neysluskammta af vímuefnum eða áður en heimilt er að brugga heima hjá sér, eða áður en heimilt er að guðlasta, að birta klám eða hvað það er svo sem sem Píratar leggja til, eða alla vega einhverjir þingmenn þeirra, að við refsum ekki fyrir? Hv. þingmaður fer alltaf að vísa í einhverja meinta hræsni einhvers annars.

Virðulegi forseti. Það að einhver annar þingmaður eða annað fólk hafi mótsagnakenndar skoðanir eru ekki rök fyrir niðurstöðu hv. þingmanns. Þar sem hv. þingmaður hefur ekki lesið frumvarp Pírata og fleiri skal ég bjóðast til að senda honum það í tölvupósti í þeirri von að hann lesi það og komi með uppbyggilegar ábendingar um hvað megi fara betur. Ég hefði bara mjög mikið gagn og mjög gaman af því að fá aðstoð hv. þingmanns við að auka frelsi í þessu landi. En af einhverjum ástæðum birtist það ekki þegar kemur að málum nema þau komi frá Sjálfstæðisflokki.