150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:58]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Heldur hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson að við tökum á þessari fíkn með því að opna neyslurými? Nei. Ástæðan fyrir því að ég minntist á hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson í ræðu minni er sú að hann hafði í óundirbúnum fyrirspurnatíma lagt til að spilakassasalir yrðu ekki lengur leyfðir. Mér finnst það í hróplegu ósamræmi við þetta mál og það er það sem ég skil ekki. Þá væri nær að kalla spilasalina neyslurými. Við lögum ekki fíknina, þetta eru bara illa farnir fíklar. Ef ekki er spilasalur spila fíklarnir auðvitað annars staðar, hv. þingmaður. Þeir hætta ekki allt í einu að spila af því að ekki eru spilakassar neins staðar. (Gripið fram í: Erum við að ræða spilakassa?) Nei, við erum ekki að því. Ég er bara að tala um að þetta muni ekki leysa neinn vanda. Ég er algjörlega sannfærður um það, þar sem ég þekki talsvert til í þessum heimi, að það er líka mikill misskilningur ef menn halda að allir neytendur fari allt í einu í neyslurými. Því get ég lofað, hv. þingmaður, að menn fara ekki í neyslurými í miðri neyslu. Menn neyta efnanna þar sem þeir eru á hverjum tíma, það hafa þeir alltaf gert og munu alltaf gera. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um það.

Við glímum auðvitað við alls konar fíknir. Ég vil ekki beita refsingum og ég trúi því ekki að refsingar muni laga nokkra fíkn. Því hef ég aldrei trúað. En ekki er þar með sagt að allt sem við gerum og eitthvert frelsi muni bæta ástandið, ég held að það geti jafnvel gert það verra.