Bráðabirgðaútgáfa.

150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:02]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við erum þó sammála um að þungar refsingar hjálpi ekki neinum sem er að glíma við fíkn. Ástæðan fyrir því að ég er ekki hrifinn af frumvarpinu og mun ekki styðja það er sú að ég tel það ekki vera til gagns og jafnvel meira til ógagns. Það er það sem ég er að reyna að rökstyðja. Í þessu eru mjög röng skilaboð meðan við höfum þessa hluti refsiverða. Þetta skapar vandamál í kringum neyslurýmin o.s.frv. Hugsanlega getur þetta að einhverju leyti nýst einhverjum en þetta er ástæðan fyrir því að ég tel þetta ekki vera gott. Ég er svolítið undrandi á því hve mikil áhersla er lögð á þetta mál og talsvert lagt á sig til að koma því í gegn alveg þverpólitískt og hlusta svo á málflutninginn í kringum það sem er algjörlega í andstöðu við málflutninginn þegar við ræðum um aðra fíkn. Það sem mér finnst svo óskiljanlegt í umræðu af þessu tagi er að menn taki eitt út og segi svo allt annað þegar verið er að tala um aðra fíkn sem getur verið alveg jafn skaðleg og þessi.

Við erum alltaf að glíma við veikleika mannskepnunnar. Við höfum lengi vel trúað því að refsingar myndu laga þetta allt saman en ég held að við séum loksins að fara að læra að þungar refsingar hafa nánast eyðilagt líf fólks á viðkvæmum aldri. Sumir segja að hæfilegar refsingar, mildar refsingar, geti jafnvel hjálpað mörgum. Það má vera svolítið til í því en verum þá samkvæm sjálfum okkur og metum hlutina af einhverri skynsemi.