150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:14]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna því sérstaklega að við skulum hér vera að gera þetta frumvarp að lögum. Það er fyrsta raunverulega skrefið í átt að því að sinna skaðaminnkun sem er studd af löggjöf. Það er löngu tímabært að stíga þetta skref. Þetta er róttækt skref, það er vel undirbyggt og það sýnir kjark löggjafans í þessum efnum. Við erum með þessu móti að bjarga mannslífum. Við erum að sýna fólki virðingu sem er í sérstaklega erfiðri stöðu og er jaðarsettast af öllum íbúum samfélagsins. Það er gríðarlega mikilvægt að við mætum því fólki þar sem það er statt og sýnum því virðingu.

Ég er stolt af því að vera heilbrigðisráðherra á þessum tímamótum og þakka hv. velferðarnefnd fyrir afar góð störf og jafnframt þann þverpólitíska stuðning sem fram kemur á atkvæðagreiðslutöflunni.