150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:15]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir þetta frumvarp og fyrir það hugrekki sem hún sýnir í að leggja það fram. Þetta er gríðarlega mikilvægt skref og þetta er mannúðarmál. Við erum að stíga skref í átt að því að mæta fólki þar sem það er en ekki að reyna að rífa það á einhvern stað þar sem við viljum að það sé. Við vitum að það virkar ekki. Þetta er einmitt til að bjarga lífum og þetta er gríðarlega mikilvægt upp á skaðaminnkunina, að við séum að horfa meira í þá átt. Vonandi munu næstu skref fela í sér að afglæpavæða vörslu neysluskammta vímuefna almennt í samfélaginu, að við opnum faðminn, aðstoðum fólk og færum okkur af þeirri vegferð að refsa þeim sem eiga við fíknivanda að stríða.