150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:16]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég fagna því mjög að við séum að samþykkja þetta frumvarp í dag. Hæstv. heilbrigðisráðherra talaði um kjark og ég vil hrósa henni fyrir að hafa haft hugrekki til að leggja frumvarpið fram og okkur öllum fyrir að hafa hugrekki til að sýna fíklum mannúð og virðingu. Þetta snýst nefnilega um það. Þetta snýst um að opna kerfið fyrir þeim sem hafa mögulega gengið á vegg alla sína ævi. Þetta snýst um að auka traust þess hóps sem ber ekkert traust til kerfisins, veita honum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu, veita honum umhyggju og mannúð. Þetta er slíkt mál.

Vegna orða hv. þm. Birgis Þórarinssonar um að ríkissaksóknari og lögregla hafi ekki skilað inn umsögn tek ég fram að sérstaklega var leitað eftir umsögnum þeirra og hv. velferðarnefnd fékk þau svör að hvorugt embættið teldi neina þörf á að skila inn athugasemdum vegna þess að búið væri að mæta öllum þeim ábendingum sem þau höfðu áður (Forseti hringir.) komið með.