150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:19]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Ég vil líka byrja á að þakka heilbrigðisráðherra fyrir að leggja frumvarpið fram og hafa seiglu í að klára þetta á þinginu með okkur. Þetta er ekki róttækt skref. Vísindin og staðreyndir sýna að þar sem þetta hefur verið reynt skilar það árangri. Það skilar þeim árangri að heilbrigðisaðstæður eru miklu betri. Ég talaði við forseta Sviss á sínum tíma þegar við Píratar vorum að vinna fíkniefnastefnuna okkar. Þar hafði þetta þá verið gert í fjöldamörg ár, kannski 15 ár. Hvers vegna? Vegna þess að þetta skilar öllum landsmönnum betra heilbrigði.

Ég skoðaði hvað var gert í Portúgal. Þar var varsla neysluskammta afglæpavædd. Hvers vegna gerðu Portúgalar það? Vegna þess að það var ópíumfaraldur í landinu og eyðni var að dreifast út um allt. Niðurstaðan sem ég skoðaði í skýrslu sem kom út sex árum seinna var sú að fíknifaraldurinn jókst ekki, það dró úr honum og heilbrigði var tryggt. Við vitum þetta allt saman þannig að þeir sem vilja ekki styðja málið á þeim forsendum (Forseti hringir.) að um mannúðarsjónarmið sé að ræða gagnvart fíklum ættu að hugsa um almannaheill og heilbrigði allra landsmanna sem málið verndar.