150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

leiðsögumenn.

590. mál
[16:33]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina sem er um málefni sem hefur verið til umræðu um langt skeið og kemur reglulega upp á vettvangi þingsins. Líkt og hv. þingmaður nefndi hef ég áður svarað fyrirspurn um sambærilegt málefni, síðast munnlegri fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar í febrúar 2019, um menntun leiðsögumanna og lögverndun starfsheitis þeirra, og áður skriflegri fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur um leiðsögumenn í júní 2017.

Afstaða mín er í stuttu máli, má segja, óbreytt síðan þá, þ.e. ég tel ekki koma til álita að lögvernda starfsheitið leiðsögumaður en ég ætla að fara aðeins nánar yfir það á hverju ég byggi það mat.

Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt að tryggja eftir fremsta megni gæði ferðaþjónustu og öryggi ferðamanna enda er það í samræmi við áherslur Vegvísis í ferðaþjónustu sem unnið hefur verið eftir síðustu ár. Í nýrri Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 er líka sterk áhersla á fagmennsku, gæði og öryggi. Hún var unnin í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og greinarinnar og leggur grunninn að nýrri aðgerðaáætlun 2020–2025 sem er í vinnslu.

Ég er þeirrar skoðunar að fara megi aðrar leiðir til að ná markmiðum um aukin gæði, öryggi og umhverfisvernd en að lögvernda starfsheiti leiðsögumanna. Mikilvæg skref hafa verið tekin í þá átt á undanförnum árum, t.d. þegar ný lög um Ferðamálastofu tóku gildi 1. janúar 2019, en samkvæmt þeim er öllum sem framkvæma skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis, innlendum sem erlendum aðilum, skylt að setja sér öryggisáætlanir fyrir slíkar ferðir og uppfæra reglulega. Þar stendur að öryggisáætlanir skuli samanstanda af áhættumati, verklagsreglum, viðbragðsáætlun og atvikaskýrslu. Áhættumatið skal lagt til grundvallar m.a. vali á starfsmönnum, svo sem leiðsögumönnum. Í verklagsreglum sem taka mið af áhættumati skulu m.a. koma fram upplýsingar um reynslu, þekkingu og kunnáttu starfsmanna sem annast ferðir. Eins og fram kemur í greinargerð frumvarpsins er þessum ákvæðum ætlað að stuðla að aukinni neytendavernd og öryggi ferðamanna ásamt aukinni fagmennsku í starfsemi ferðaþjónustuaðila.

Þá var Hæfnisetur ferðaþjónustunnar stofnað árið 2017 en það er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi að ónefndu gæða- og umhverfiskerfinu Vakanum sem er í sífelldri endurskoðun.

Ráðuneyti mitt mun að sjálfsögðu halda áfram að vinna að þessum og öðrum verkefnum sem stuðla að bættum öryggismálum, gæðamálum, umhverfisvernd og neytendavernd í ferðaþjónustu. Aðalástæðan fyrir því að ég tel ekki koma sérstaklega til álita að lögvernda starfsheitið leiðsögumaður er sú að mér finnst með öllu óljóst að það feli í sér slíkan ávinning fyrir samfélagið almennt eða ferðamenn sérstaklega að það réttlæti þá skerðingu á atvinnufrelsi sem í því felst og enn fremur tel ég hægt að ná markmiðum um gæði með hófsamari hætti án þess að skerða það og búa til viðamikla umsýslu utan um leyfisveitingar, eftirlit og viðurlög. Það væri æskilegra að mínu mati.

Almennt séð finnst mér nærtækara að gera kröfur til fyrirtækjanna en sjálfra einstaklinganna, þ.e. að fyrirtækin fái skráningu í sinni tegund afþreyingarferðamennsku, að krafa sé gerð um að þau hafi viðeigandi öryggisáætlanir og fylgi þeim eftir og að það sé eftirlit með því. Þannig er það t.d. á Nýja-Sjálandi sem er áfangastaður sem gerir mjög verulega út á afþreyingar- og ævintýraferðamennsku. Mér finnst heldur ekki útilokað að gera hæfniskröfur til leiðsögumanna þegar það snýst um öryggi, t.d. í jöklaleiðsögn eða annars konar leiðsögn sem krefst sérstakrar varkárni og þekkingar á staðháttum.

Varðandi spurningu hv. þingmanns um hvort það að skilyrða að leiðsögumenn sem starfa hér á landi hafi staðbundna þekkingu finnst mér eins og áður segir að slíkar kröfur sé einkum hægt að réttlæta með vísan til öryggis. Víða erlendis hefur verið greint á milli almennra leiðsögumanna, gönguleiðsögumanna og fjallaleiðsögumanna. Slíkt fyrirkomulag mætti einnig skoða hér á landi en með aukinni fjölbreytni í afþreyingu hefur sérhæfing leiðsögustarfsins sannarlega vaxið. Hér verður þó að gæta að jafnræðissjónarmiðum á milli þeirra sem starfa fyrir innlenda aðila og erlenda aðila. Eins og ég nefndi erum við á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til ársins 2030 að vinna sérstakar aðgerðir og mér finnst það sannarlega koma til álita og það hefur verið rætt að hvaða leyti hægt væri að efla gæði, öryggi og fagmennsku þegar kemur að þessum þætti ferðaþjónustunnar sem er vissulega bæði ofboðslega mikilvægur til að vernda öryggi ferðamannanna sjálfra, vernda náttúruna, tryggja jákvæða upplifun ferðamannanna og er mjög verðmætur og mikilvægur þáttur í ferðaþjónustunni.

Ég er bara enn á þeirri skoðun að hægt sé að ná fram þeim þáttum án þess að lögvernda starfsheitið sérstaklega.