150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

leiðsögumenn.

590. mál
[16:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svörin. Ég get tekið undir með henni að mörgu leyti en þó er ég ekki sammála öllu og ég spyr: Er eitthvað sem stendur raunverulega í vegi fyrir því að lögverndun starfsins verði að veruleika? Rökin sem ráðherra færði hér fram er að ávinningurinn væri ekki endilega ljós fyrir alla. Miðað við þá áherslu sem við leggjum á menntun almennt á Íslandi teljum við okkur vera að búa til hæfari einstaklinga til að sinna tilteknum störfum og mér finnst það hljóta að vera hér undir líka.

Eins og ég sagði áðan tek ég undir það að við erum hér með fólk sem hefur starfað í áratugi við leiðsögn sem hefur ekki til þess sérstaka menntun og starfar jafnvel sjálfstætt og allt það en getur kannski sótt sér menntunina ef búin yrði til einhver leið inn í það ferli þannig að viðkomandi þyrfti ekki að taka allan skólann heldur væri starfsreynslan metin eins og í svo mörgum öðrum störfum. Ég tek dæmi af minni eigin stétt, náms- og starfsráðgjöfum. Það var mikill barningur að fá í gegn lögverndun á því starfsheiti og alls konar fólk sinnti því starfi sem var ekki endilega til þess bært eða hafði jafnvel þekkingu. Svo hefur verið í gegnum tíðina og er enn þrátt fyrir allt.

Það er sannarlega gott að gera kröfur til fyrirtækja um að þau séu með menntaða og góða starfsmenn í vinnu og margir koma að þessu en ég tel að jafnræðissjónarmið gætu einmitt verið virt að vettugi, það gæti verið svolítið erfitt ef við ætluðum að setja eingöngu jöklaleiðsögumenn eða eingöngu fjallaleiðsögumenn eða hvað það nú er. Ráðherrann hlýtur að kannast við það eins og ég að ef maður ferðast erlendis í hópum (Forseti hringir.) verður erlendur leiðsögumaður eða innfæddur líka að vera með í slíkum ferðum þótt maður sé með íslenskan leiðsögumann. Ég myndi vilja sjá það hér að ekki komi bara rútur erlendis frá með allan pakkann án þess að nokkur komi að málum hér.