150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

570. mál
[16:47]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að setja þetta mál á dagskrá. Þó að langt sé um liðið síðan fyrirspurnin var lögð fram er viðfangsefnið enn til staðar og gott að fá hér tækifæri til að fara yfir stöðu mála. Að mínu viti er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi eiginlega stærsta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir núna til þess að koma hér á fullu jafnrétti kynjanna. Samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er fullt kynjajafnrétti enn þá það markmið sem fjallað er um í heimsmarkmiði nr. 5. Samkvæmt því sem hefur komið fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er það heimsmarkmið sem þjóðir heims eiga lengst í land með að ná, fullt jafnrétti kynjanna. Það er eiginlega alveg ótrúlegt þegar árið er 2020 og þar spilar ofbeldið stórt hlutverk í því að hindra það að fullt jafnrétti komist á.

Eins og hv. þingmaður nefndi skipaði ég stýrihóp um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi sem tók til starfa undir stjórn forsætisráðuneytisins með aðkomu dómsmálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis. Hv. þingmaður nefndi hér þá skýrslu sem María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur vann um stafrænt kynferðisofbeldi en hún notar í þeirri greinargerð hugtakið „kynferðisleg friðhelgi“ og færir rök fyrir því að það sé víðtækara en stafrænt kynferðisofbeldi og nái utan um margþættari háttsemi.

Meginniðurstöður þessarar skýrslu voru að gildandi löggjöf veiti ekki kynferðislegri friðhelgi einstaklinga fullnægjandi vernd sem m.a. birtist í óskýrri dómaframkvæmd og neikvæðri upplifum brotaþola og því sé þörf á lagasetningu. Lagasetningu ætti síðan að fylgja eftir með þríþættum stefnumótandi aðgerðum: Í fyrsta lagi með forvörnum og fræðslu, í öðru lagi með úrbótum á meðferð mála innan réttarvörslukerfis og í þriðja lagi með auknum stuðningi við þolendur. Þessar tillögur voru ræddar í ráðherranefnd um jafnréttismál og í ríkisstjórn og í kjölfarið var hæstv. dómsmálaráðherra falið að ráðast í endurskoðun á löggjöf og lagaframkvæmd með hliðsjón af þeim tillögum sem settar eru fram í greinargerðinni. Þar er m.a. lagt til að bætt verði sérstöku ákvæði við kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga sem gerir brot á kynferðislegri friðhelgi einstaklinga, til að mynda með birtingu og dreifingu efnis á netinu, refsivert. Hér er rétt að nefna að á vettvangi Alþingis hafa einstakir þingmenn sýnt mikilvægt frumkvæði í þessum málum með frumvörpum til að taka á stafrænu kynferðisofbeldi. Tekið hefur verið mið af þeirri vinnu í þessari skýrslu. Samkvæmt tillögum stýrihópsins er einnig unnið að lagabreytingum sem lúta að réttarstöðu brotaþola. Þær tillögur hafa hlotið ítarlega rýni réttarfarsnefndar og er nú unnið að frumvarpi í kjölfarið þannig að ég vænti þess að hæstv. dómsmálaráðherra verði með þessi mál á sinni þingmálaskrá á komandi hausti.

Hvað varðar þau mál sem ekki lúta að lagabreytingum hefur félagsmálaráðuneytið tekið tillögur um bætta þjónustu við brotaþola til skoðunar í tengslum við framkvæmd áætlunar um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess. Þá hefur þegar verið gert ráð fyrir forvörnum til að verja kynferðislega friðhelgi. Þingsályktunartillögu sem ég mælti fyrir þann 12. mars sl., Forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, fylgdi áætlun fyrir árin 2021–2025.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að forvarnir verði samþættar kennslu og skólastarfi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum en eigi sér einnig stað innan frístundaheimila og félagsmiðstöðva, innan íþrótta- og æskulýðsstarfs og í öðru tómstundastarfi. Þannig er verið að leitast við að ná til allra barna og ungmenna og byggja upp samskipti jafnréttis og virðingar þar sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni fá ekki þrifist. Er mikilvægt að beina þessum forvörnum í gegnum skólakerfið til að ná til allra barna en tillagan gerir einnig ráð fyrir að ráðist verði í gerð námsefnis fyrir öll skólastig, auk fræðsluefnis um eðli og afleiðingar kynferðislegs og kynbundins ofbeldis og áreitni fyrir starfsfólk sem vinnur með börnum og ungmennum. Það var góð umræða hér í þingsal þegar mælt var fyrir þessari tillögu sem gefur mér vonir og væntingar um að henni verði lokið á þessu þingi og við getum farið að vinna samkvæmt þessari áætlun.

Það er tímabært að móta heildstæða stefnu í þessum málaflokki og eftir slíkri stefnu hefur ítrekað verið kallað auk þess sem ríkar kröfur hvíla á íslenskum stjórnvöldum vegna alþjóðlegra skuldbindinga. Ég nefni Istanbúl-samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum, samning Evrópuráðsins um varnir gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun á börnum og samning Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks. Vinnan er á góðum rekspöl og ég vonast til þess að við verðum búin að taka töluvert stór framfaraskref á þessu ári og því næsta.