150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aðgerðir gegn stafrænu kynferðisofbeldi.

570. mál
[16:52]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir að setja málið á dagskrá. Það er gríðarlega mikilvægt að við ræðum þessi mál reglulega og höfum það allt uppi til umræðu því að það er í rauninni ekki svo langt síðan við fórum að tala um kynferðislegt ofbeldi, hvað þá stafrænt kynferðislegt ofbeldi. Ég vissi ekki hvað það var fyrir ekki svo löngu síðan en tækninni fleygir hratt fram og það er eins með glæpina og glæpamennina og vatnið, það finnur sér alltaf farveg, áfram sína leið. En það er vont mál þegar við finnum ekki leiðir til að mæta þessu og vera með aðgerðir gegn því og sporna við því. Þess vegna er mjög mikilvægt að við höfum einhver viðbrögð við því þegar það kemur upp og ég fagna öllum áformum sem hæstv. forsætisráðherra bar upp fyrir okkur og ég bind vonir við að þau komist áfram. En ég velti því fyrir mér hvað er árangursríkast, er það ekki almenn vitundarvakning og samtal og upplýsingar til allra?