150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

628. mál
[17:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Það má segja með réttu að hugtakið mannhelgi sé nokkuð víðfeðmt auk þess sem skilgreining þess kann að innihalda ólíka þætti, eftir því í hvaða samhengi það er skilgreint. Í grundvallaratriðum snertir það það sem okkur er næst, persónu okkar, líf og limi og einkalíf. Í flestum vestrænum samfélögum er mannhelgi ein af grundvallarstoðum samfélagsins og lífi einstaklingsins og vernd þess er því gert hærra undir höfði en öðrum gildum samfélagsins. Þannig hafa til að mynda flest þau samfélög sem við berum okkur saman við lagt bann við dauðarefsingum ríkisins líkt og það að deyða annan einstakling er refsivert. Þannig verður hugmyndin um mannhelgi að einhverju leyti eins og trúarleg nálgun. Með því að virða hana ekki er verið að vinna nokkurs konar helgispjöll. Einnig hefur mannhelgi verið nefnd í sömu andrá og friðhelgi. Þá styttist í umræðu um réttindi sem eru tryggð í stjórnarskrá eins og friðhelgi einkalífsins. Þannig má velta því upp hvort skilgreina eigi mannhelgi sem grundvallarrétt hvers manns engu minna mikilvægan en friðhelgi einkalífs. Þessi tvö helgishugtök tengjast að vissu leyti og má velta fyrir sér hvort þau fari ekki alltaf saman og ætti því að skilgreina saman. Þannig má segja að mannhelgi blandist að vissu marki inn í friðhelgi og að friðhelgi hljóti að einhverju leyti að vera fléttuð úr þáttum sem snerta mannhelgi. Velta má fyrir sér hvort mikilvægi mannhelgishugtaksins verði ekki meira og meira á tímum þegar persónuupplýsingar okkar eru orðnar ein verðmætasta vara í heimi og tækni sem nýtir persónuupplýsingarnar verður umfangsmeiri hluti af lífi okkar og gengur jafnvel nær okkur í auknum mæli. Þannig má aftur segja að hugtökin mannhelgi og friðhelgi samtvinnist og þurfi að skilgreinast saman.

Um þessar mundir fer fram nokkur umræða innan velferðarnefndar þingsins í tengslum við siðferðisleg gildi og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Þar er mannhelgi einmitt eitt af lykilgildunum. Því er spurt:

1. Telur ráðherra að skilgreiningin á hugtakinu „mannhelgi“ sé fullnægjandi í lögum á málefnasviði ráðuneytisins? Þá mætti kannski bæta við: Og ætti jafnvel að vinna að því að samræmd skilgreining væri til í íslenskum rétti?

2. Hefur orðið umræða um hugtakið í tengslum við breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins? Og aftur: Telur ráðherra jafnvel að efna ætti til slíkrar umræðu meðal almennings og að stjórnvöld ættu að hafa frumkvæði að því?

3. Telur ráðherra rétt að hugtakið komi fram í stjórnarskrá líkt og hugtakið „friðhelgi einkalífs“? Og þá kannski til vara að jafnvel mætti hugsa sér að þótt hugtakið væri ekki hluti af stjórnarskrártextanum verði það notað og skilgreint í greinargerð og fylgiskjölum.