150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

628. mál
[17:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mjög áhugaverð. Ég sé að hv. þingmaður ætlar að spyrja þrjá ráðherra sams konar spurninga, forsætis-, heilbrigðis- og félags- og barnamálaráðherra. Það væri lag að spyrja dómsmálaráðherra einnig af því að þetta heyrir líka undir hana en það verður kannski ekki í dag. Ég fór að skoða þetta og skoðaði bók sem heitir Mannhelgi – Höfuðþættir almennrar persónuverndar eftir Pál Sigurðsson. Ég fékk bókina bara í dag á bókasafni Alþingis en í henni er talað um að þetta snúist um persónurétt og er m.a. talað um gerhæfi og þar undir lögræði, sjálfræði og fjárræði. Þetta varðar líka það hvernig hægt er að frelsissvipta fólk. Ég bið fólk að fara mjög varlega í það verk að ætla að fara að endurskilgreina þessa hluti af því að í hugtakinu, og hvernig það hefur verið þýtt úr t.d. lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, felst gríðarleg réttarvernd, þetta er inni í rétti sjúklinga. Ef við förum að breyta því einhvern veginn og missa þar af leiðandi einhverja réttarvernd sjúklinga, í því hvernig farið er með persónuupplýsingar þeirra eða hvernig hægt er að frelsissvipta þá, (Forseti hringir.) erum við komin á ofboðslega hálan ís. Ég ítreka bara: Förum varlega í þessu.