150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

628. mál
[17:09]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vildi bara minna á að 10. gr. frumvarps stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá er einmitt um mannhelgi, að öllum skuli tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan. Einnig er þetta 3. gr. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að allir eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi. Þess vegna finnst mér áhugaverð umræðan í velferðarnefnd um að taka eigi mannhelgi út og setja mannvirðingu eða eitthvað svoleiðis í staðinn. Það hljómar fyrir mér eins og verið sé að draga úr réttindum sem eru mjög vel skilgreind hvað varðar mannhelgi. Það er æðsta réttarorðið sem hægt er að nota til að skilgreina réttindi fólks og að minnka það er eitthvað sem alla vega við Píratar segjum nei við. Það er ekki í rétta átt og ætti frekar styrkja það.