150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

hugtakið mannhelgi.

628. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það kom kannski ekki nægilega vel fram að hér í dag er heilmikið safn af umræðu um mannhelgi og um hugtakið á málasviði marga ráðherra og m.a. hafði ég gert ráð fyrir að hæstv. dómsmálaráðherra gæti verið með okkur. Af því varð því miður ekki í dag en ég hvet hv. þingmenn til að fylgjast með síðar.

Það má velta fyrir sér muninum á ensku hugtökunum, með leyfi forseta, „human sanctity“ og „security of person“ sem hafa bæði verið skilgreind sem mannhelgi. Ég held að fyrra hugtakið nái í raun betur utan um meininguna og kannski rétt að halda því við. Eins og hæstv. forsætisráðherra kom inn á snýst þetta svolítið um mannlega reisn. Kannski er það þannig, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi, að við getum ekki skilgreint þetta og kannski eigum við ekki að reyna að negla þetta neitt rosalega fast niður vegna þess að væntanlega hefur tilfinning okkar fyrir hugtakinu mannhelgi einhvern breytileika frá kynslóð til kynslóðar. Ég trúi því að við sem nú erum uppi munum skilgreina hugtakið öðruvísi en þeir sem verða uppi eftir 100 ár, líkt og hæstv. forsætisráðherra kom óbeint inn á áðan. Þetta eru flóknar vangaveltur. Ég teldi að umræða um málið til að mynda í stjórnarskrá eða hliðargreinum stjórnarskrár, eins og greinargerðum og þess háttar, væri gagnleg, einkum og sér í lagi vegna þess að gera má ráð fyrir að þegar fram líða stundir (Forseti hringir.) muni umræða um þetta hugtak fara vaxandi.