150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

tófa og minkur.

545. mál
[17:17]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Eins og hæstv. forseti kynnti kem ég hingað fyrir hönd Sigurðar Páls Jónssonar sem lagði fram þessa fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra.

Áhyggjur mínar eru vegna ágangs tófu og minks á fuglalíf í þjóðgörðum og friðlýstu landi eins og á Hornströndum, svo dæmi sé tekið. Í þjóðgörðum og á friðlýstu landi er veiði á tófu og mink bönnuð. Allir vita hvernig komið er fyrir fuglalífi á Hornströndum, nánast enginn mófugl og tófan búin að hreinsa björgin þar sem hún nær til. Á Hellissandi og Rifi, svo dæmi sé tekið, er eitt stærsta kríuvarp á landinu. Það varp er í stórhættu vegna ágangs tófunnar.

Árið 1940 var gerður listi yfir jarðir með æðarvörp á svæðinu frá Hvítá að Hítará. Þetta eru m.a. Mýrar á Vesturlandi, svæðið milli Hvítár í Borgarfirði og Hítarár. Þá voru 28 jarðir með æðarvarp en í dag er æðarvarp á átta jörðum og allir í basli við að verja vörpin fyrir ágangi tófu og minks.

Það er í rauninni ekki fyrr en upp úr 1980 sem tófan fer að sjást niður við sjó og hefur orsakað það að æðarvarp í Flóanum er sáralítið núorðið. Einnig er svartbakur hættur að verpa í Flóanum vegna tófunnar. Þá er orðið mun minna mófuglalíf þar en áður var. Eins og þekkt er reyna bændur eftir megni að verja sig fyrir ágangi tófunnar með því að girða fyrir varpsvæði. Víða á varpsvæðum er aðgrunnt og því erfitt um vik að koma girðingum þannig fyrir að tófan komist ekki fyrir endann á þeim. Þess vegna þarf víða að vakta endann á meðan varpið stendur yfir.

Hægt er að nefna að eitt stærsta lómsvarp á landinu var á Ökrum á Mýrum en þar komst enginn ungi upp síðasta sumar. Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að halda þessum vargi niðri. Sveitarfélagið ræður veiðimenn til að veiða tófu og mink og þeir fá ákveðna upphæð greidda fyrir hvert veitt dýr. Gallinn er þó sá að veiðimennirnir eru með kvóta á hverju svæði og þegar kvótanum er náð eru veiðarnar stoppaðar. Það sem eftir er er sett á, eins og það er kallað. Nú fær t.d. tófan og minkurinn að fjölga sér óáreitt í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli, á Hornströndum og víðar. Nýjar rannsóknir hafa sýnt að tófan getur ferðast um 100 km á sólarhring þannig að yfirferðin er mikil.

Mig langar í þessu samhengi að biðja hæstv. umhverfisráðherra að svara þeim fyrirspurnum sem lagðar voru fram skriflega og fagna því ef umræður skapast hér um þetta mál. Ég efast ekki um að sitt sýnist hverjum en hæstv. umhverfis- og samgönguráðherra tekur vinsamlegast til sín þær fjórar spurningar sem lagðar voru fyrir.