150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

tófa og minkur.

545. mál
[17:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Tófan, refurinn, melrakkinn, hvaða nafni sem við viljum nefna þetta merka dýr, er eina upprunalega landspendýrið á Íslandi og nam hér land löngu áður en menn settust hér að. Refurinn er því órjúfanlegur hluti íslenskrar náttúru og sérstakur vegna langvarandi einangrunar frá öðrum refastofnum. Melrakkinn er norðurheimskautadýr og hefur fækkað verulega í öllum heimkynnum sínum. Refur nýtur almennra friðunarákvæða laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, en ráðherra hefur að hluta til aflétt þeirri friðun og heimilað veiðar í því skyni að draga úr og minnka hættuna á tjóni af hans völdum. Aldrei hefur þó verið lagt mat á tjón né hvort veiðar hafi þar einhver áhrif.

Minkar eru ágeng framandi tegund í íslenskri náttúru. Þeir voru fyrst fluttir til landsins til ræktunar og í kjölfarið sluppu þeir fyrstu úr ræktun árið 1932. Það tók minkinn aðeins rúm 40 ár að nema öll þau svæði hér á landi sem á annað borð eru lífvænleg fyrir tegundina. Minkur nýtur ekki friðunar samkvæmt ákvæðum laga nr. 64/1994 og veiðar eru stundaðar á honum um allt land.

Náttúrufræðistofnun Íslands ber ábyrgð á vöktun íslenska refastofnsins. Á síðasta ári var undirritaður samningur af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins við Náttúrustofu Vesturlands um vöktun minkastofnsins til ákveðins tíma.

Spurt er hvort viðgangur tófu og minks hafi verið rannsakaður undanfarin ár. Vöktun íslenska refastofnsins hefur staðið yfir frá árinu 1979. Viðkomu stofnsins má deila í tvo þætti, annars vegar hlutfall kvendýra sem tímgast og hins vegar frjósemi þeirra kvendýra sem tímgast. Fyrrnefndi þátturinn er oft nefndur geldhlutfall og það er lykilþáttur þegar kemur að náttúrulegri stofnstærðarstjórnun refa á Íslandi. Þegar stofninn tók að vaxa eftir að hafa verið í lágmarki um og eftir 1980 stækkaði hann nærri því tífalt til ársins 2008. Í stuttu máli má segja að viðkoma hafi þá verið mun hærri en dánartíðni. Munaði þá mestu um að hærra hlutfall kynþroska læðna tók þátt í tímgun, jafnvel þær allra yngstu. Fjöldi yrðlinga í hverju goti, þ.e. frjósemin, er aftur á móti óvenjureglubundinn hjá íslenskum refalæðum og sveiflast ekki í takt við stofnbreytingar.

Hv. þingmaður spyr um áhrif banns við veiðum á minki og tófu í þjóðgörðum á stofnstærð. Eins og áður sagði er minkur veiddur um allt land, líka á friðlýstum svæðum. Ekki er um fortakslaust bann við veiðum á tófu í þjóðgörðum að ræða. Til dæmis eru refaveiðar stundaðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs þó að hvorki sé vitað um stofnbreytingar né meint tjón til réttlætingar veiðunum. Í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli eru 25 þekkt greni og hafa þrjú til sex af þeim verið í ábúð undanfarin ár og þeim ekki fjölgað þrátt fyrir að refur sé ekki veiddur innan þjóðgarðsins.

Friðlandið á Hornströndum er ekki þjóðgarður en rétt er að nefna það í þessu samhengi þar sem Hornstrandir eru líklega mikilvægasta griðland refa á Íslandi og hann verið friðaður þar gegn veiðum frá árinu 1995. Á Hornströndum eru þekkt um 170 greni og voru líklega um 45–50 þeirra í ábúð á árunum 1998–2014. Þó að ekki hafi verið lagt mat á stofnstærð fyrir og eftir friðun liggja fyrir tölur um grenjavinnslu frá 1958. Allt bendir til þess að stofnstærð refa á Hornströndum hafi verið í takt við landið í heild.

Hv. þingmaður spyr um áhrif tófu og minks á viðgang mófugla og bjargfugla. Minkur getur vafalaust haft neikvæð áhrif á viðgang t.d. mófugla og annarra tegunda svæðisbundið en þetta hefur því miður ekki verið rannsakað með áreiðanlegum hætti hérlendis. Þekkt er að minkur getur valdið usla í æðarvörpum komist hann í þau, enda flinkur afræningi sem á sér ekki náttúrulega óvini hér á landi. Ekki er vitað um áhrif minka á bjargfugla, utan þess að hann er þekktur afræningi teistu og annarra bjargfugla sem verpa í lágum klettum sem eru aðgengilegir minkum.

Tófan var komin hingað á undan manninum og er, eins og kom fram áðan, órjúfanlegur hluti af íslenskum vistkerfum sem landnámsspendýr, vistkerfum sem bæði mófuglar og bjargfuglar búa í. Þessir dýrahópar hafa haft langan tíma til að aðlagast hverjir öðrum. Kannski má segja að viðgangur bjarg- og mófuglategunda sé að einhverju leyti stilltur inn á kerfi þar sem afrán af völdum gangandi og fljúgandi rándýra er til staðar og varp bjargfugla er einmitt einkennandi fyrir slíka aðlögun. (Forseti hringir.) Ekki hefur þó með rannsóknum verið sýnt fram á neikvæð áhrif á viðgang eða stofnstærð mófugla eða bjargfugla af völdum refa hér á landi og verður að segjast eins og er að mikilvægt væri að hafa fleiri rannsóknir um það. Ég mun koma inn á önnur svör við spurningum þingmannsins á eftir.