150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

tófa og minkur.

545. mál
[17:26]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér á landi er enn til hópur manna sem er með landið í beinunum og æðunum og þekkir náttúruna eins og lófann á sér. Þeir hafa lifað með henni lengi og veitt tófu og verið grenjaskyttur til margra áratuga. Ein grenjaskyttan sagði mér að vandamálið varðandi tófuna núna væri að þéttleiki grenja væri orðinn mikill og að á síðustu árum hefði tófunni fjölgað niðri í byggð.

Ástæðan kann að vera sú að fyrir nokkrum árum var hætt að greiða fyrir leitir, þ.e. að leita að grenjum. Það er alls ekki svo að alls staðar sé kvóti. Mér skilst að það sé bara Vesturlandið, ég þekki það ekki þar sem ég er annars staðar að af landinu.

Svo hafa menn verið að setja út hræ. Mér er sagt líka af fróðum mönnum sem hafa fylgst með þessu og tekið þátt í rannsóknum og talið hvolpa í tófum í áratugi að frjósemi hennar hafi aukist til muna, alveg gríðarlega síðustu árin. Það kann að vera af því að ekki hefur verið leitað og að menn hafa jafnvel verið að setja út hræ og ekki sinnt þeim sem skyldi, það yrði bara að fóðra dýrin.