150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

tófa og minkur.

545. mál
[17:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram. Hjá a.m.k. tveimur hv. þingmönnum til viðbótar við þau sjónarmið sem ráðherra setti fram hefur komið fram umræða um að refurinn hafi verið hér við landnám sem vissulega er rétt og engar athugasemdir gerðar við það. Þetta er samt ekki bara þannig að þetta hafi verið í þessu náttúrulega jafnvægi rándýra eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á áðan heldur hefur líka verið um að ræða aðgengi refs að æti sem er lagt út við veiðar sem er síðan ekki sinnt um. Refur sækir í sorphauga og urðun skrokka þannig að refurinn hefur líka verið alinn á ákveðnum svæðum þó að það hafi ekki verið meiningin, nema síður sé. Áhrifin virðast hafa magnast upp.

Hæstv. ráðherra sagði að ekki hefði verið sýnt fram á neikvæð áhrif refs á mófugla. Ég held að ég hafi náð þessu orðrétt eftir hæstv. ráðherra. Eflaust má alveg færa rök fyrir því að þetta hafi ekki verið sýnt með fullnægjandi vísindalegum rannsóknum en ég held að það standist enga skynsemisskoðun að halda því fram að refurinn hafi ekki áhrif á mófugla og annað fuglalíf þar sem hann er fyrir. Ég held að það blasi við þeim sem þekkja svæðin og þeim sem hafa heimsótt Hornstrandir áratugum saman. Þá er algjörlega ljóst að fuglalíf er þar með allt öðrum hætti en var áður fyrr. Þó að auðvitað séu varnir fyrir verðmæti og hagsmuni landsmanna og bænda mikilvægar verðum við líka að nálgast málið út frá náttúruvernd og því sjónarmiði að (Forseti hringir.) fuglalífið sé varið þannig að jafnvægi skapist. Það virðist ekki vera jafnvægi á í þessum málum í dag.