150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

svifryk.

571. mál
[17:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að blanda mér lítillega í umræðu um svifryk. Ég held að við mörg sem erum alin upp á hér á landi tökum því sem sjálfgefnu að einhverja daga á ári berist ryk ofan af hálendinu og jafnvel af láglendi yfir byggð. Ég er t.d. alin upp við það yst á Fljótsdalshéraði að nokkra daga á ári í suðvestanátt berst mjög fínt ryk frá Dyngjufjöllum og Jökulsáraurum upp við Vatnajökul. Sem krakki velti ég því aldrei fyrir mér í rauninni hvað þetta hafði ótrúlega mikil áhrif meira en 100 árum eftir að þarna varð það gos sem rykið kemur frá. (Forseti hringir.) Ég held að það væri ástæða til að vakta upptök þessara rykbólstra.