150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

svifryk.

571. mál
[17:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir innlegg hans áðan og þessar ágætu umræður. Þegar allt kemur til alls er sennilega svifryksmengun á Íslandi nokkru minni en víða annars staðar. Það er kannski ákveðin huggun, ég veit það ekki. Stór þáttur er auðnirnar og þau svæði þannig að landgræðsla er lykilatriði þó að það gangi frekar hægt að laga það sem laga þarf. Ég vil samt nefna það hér.

Varðandi nagladekkin hafa rannsóknir sýnt fram á að þau eru einn aðalrykvaldurinn í þéttbýlinu, sérstaklega í Reykjavík og stærstu bæjunum, en þá vil ég koma að hreinsuninni. Hver er hún í raun og veru? Hún er einfaldlega að skola öllu ullabjakkinu annaðhvort úti í sjó eða í viðtaka eins og stöðuvötn. Hreinsunin er í sjálfu sér skammtímalausn og spurning hversu gáfuleg hún er alltaf. Við erum ekki bara að tala um örplast, við erum líka að tala um annars konar öragnir sem berast út í umhverfið og eru ekki hollar.

Mig langar svo í þriðja lagi að ræða aðeins um orkuskiptin. Þau eru mjög mikilvæg í þessu sambandi vegna þess að þrátt fyrir svifrykslosun frá dekkjum rafbíla er svifrykslosunin miklu minni en frá venjulegum bílum þannig að orkuskiptin eru lykilatriði í þessu.

Þá langar mig aðeins að koma inn á sót. Það er mjög gott að fagna þeim aðgerðum sem þó hefur verið gripið til, t.d. varðandi rafvæðingu hafna, bann við ákveðnum olíutegundum innan efnahagslögsögunnar o.s.frv. Á norðurslóðum er þetta talið ein alvarlegasta mengunin, einfaldlega vegna þess að þegar kemur að snjó og ís, þegar þessir fletir dökkna vegna sóts, (Forseti hringir.) eykst bráðnunin og það er mjög mikilvægt koma í veg fyrir það hér líka.