150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aukin skógrækt.

785. mál
[17:57]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir fyrirspurnina og líka fyrir það hversu ötullega hann ræðir um skógræktarmál á Alþingi. Stutta svarið við spurningunum er: Já og já.

Lengra svarið er þetta: Þegar spurt er hvort ráðherra telji að aukin skógrækt geti nýst til að bæta úr bágu atvinnuástandi nú um stundir er aukin skógrækt einmitt ein af þeim aðgerðum sem ég setti af stað vegna þess ástands sem nú er uppi í þjóðfélaginu á grundvelli fjárauka sem samþykktur var á þingi í lok mars. Sú aðferðafræði sem við beittum í ráðuneytinu var að leita til stofnana okkar, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar, um verkefni sem þyrftu að geta hafist, eins og krafist er í fjáraukanum, fyrir 1. september og vera lokið fyrir 1. apríl á næsta ári. Það þrengir talsvert að því sem hægt er að gera en ég mun þá ræða aðeins þær aðgerðir sem við erum að ráðast í varðandi aukna skógrækt sem byggja á tillögum frá Skógræktinni. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir auknum verkefnum í þágu endurheimtar birkiskóga með gróðursetningu á a.m.k. 0,5 milljónum birkiplantna sem beint verður í gegnum skógrækt á lögbýlum og vinnu t.d. skólafólks og verktaka. Í það voru settar 60 millj. kr.

Þá má nefna að Skógræktin hratt af stað átaki í söfnun á birkifræi fyrir tæpum tveimur árum og hyggst Skógræktin ráðast í átak í frætínslu birkis á komandi hausti og verða verktakar ráðnir til þess starfs. Áætlað er að setja um 5 millj. kr. í þetta.

Í þriðja lagi verður unnið að friðun lands til skógræktar með stækkun girðinga og í fjórða lagi ráðist í grisjunarátak, sem hv. þingmaður spurði einmitt eftir, í nytjaskógum innan skógræktar á lögbýlum. Voru settar um 20 millj. kr. í það verkefni.

Í fimmta lagi var skrifað undir samstarfssamning við Vistorku á Akureyri um fjölbreytt verkefni við nýtingu á moltu, m.a. til skógræktar í nágrenni Akureyrar og á Hólasandi. Að verkefninu koma, auk ráðuneytisins og Vistorku, Akureyrarbær, Orkusetur, Molta, Skógræktin, Landgræðslan og Landbúnaðarháskóli Íslands. Um er að ræða verkefni sem kostar alls rúmlega 45 millj. kr. og ráðuneytið setur þriðjung í það, 15 milljónir.

Síðan er ég spurður hvort unnt sé að flýta skógræktarverkefnum með skömmum fyrirvara. Það er hægt að flýta fjölbreyttum skógræktarverkefnum víða um land með skömmum fyrirvara, svo lengi sem til eru plöntur ef verið er að tala um að gróðursetja. Ég nefndi áðan líka átak í frætínslu og varðandi grisjun og stækkun girðinga og ætla svo sem ekki að endurtaka það.

Innan skógræktar á lögbýlum liggja fyrir samningar um skógrækt þar sem auka má hraða verkefna. Því liggur fyrir að bændur geta tekið að sér fleiri verkefni og með skömmum fyrirvara teljum við að ýmsum verkefnum, sérstaklega við endurheimt birkiskóga, mætti hraða þar sem áherslan er á að byggja upp á ný eydd eða hnignuð vistkerfi. Dæmi um slík samstarfsverkefni Skógræktarinnar og Landgræðslunnar eru Hekluskógar, Þorláksskógar og Hólasandur. Við erum líka að skoða fleiri svæði sem gætu fallið í þennan flokk verkefna. Með eins skömmum fyrirvara og við vorum að tala um í ár erum við kannski fyrst og fremst að tala um endurheimtarverkefni, birki, víði og annað slíkt en til lengri tíma, ef við horfum aðeins lengra inn í framtíðina, væri hægt að skoða fleiri verkefni.

Ég vil líka geta þess að við þurfum alltaf að hafa í huga að mínu mati samlegðaráhrif af aðgerðum í þágu loftslagsmála sem varða kolefnisbindinguna og aðgerðum á sviði gróður- og jarðvegsverndar. Ég hef lagt áherslu á að við vinnum að mörgum mikilvægum markmiðum í einu og að samlegð skuldbindinga okkar með alþjóðlegum samningum um loftslagsmál, líffræðilega fjölbreytni og varnir gegn eyðimerkurmyndun sé tryggð svo dæmi séu nefnd.