150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aukin skógrækt.

785. mál
[18:02]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Þetta eru góðar umræður og ég þakka málsaðilum fyrir að halda þeim uppi. Mig langar aðeins að enduróma ákall heimsbyggðarinnar um aukna skógrækt hvarvetna og hvetja til hennar á Íslandi með öllum ráðum.

Við vitum þátt trjáa í kolefnisbindingu. Kolefnisjöfnun er annað hugtak sem við getum notað. Þar eru hagrænar aðgerðir oft heppilegar. Fyrir þinginu liggur þingmannafrumvarp um að 0,85% tekna megi taka undan skatti, ef svo má að orði komast, til kolefnisjöfnunar. Vonandi tekst að afgreiða það hér.

Þegar við tölum um skóga er verið að tala um nytjaskóga. Nytjar eru margvíslegar en það er líka verið að tala um (Forseti hringir.) íslensku frumskógana sem eru birkiskógar og reyniviðartré. Ég hvet til þess að við látum virkilega reyna á framgang í þeim efnum.