150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aukin skógrækt.

785. mál
[18:03]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég blanda mér í þessa umræðu eins og fleiri til að taka undir mikilvægi skógræktar. Skógrækt er verkefni sem krefst margra handa og er mikilvægt á tímum eins og núna, eins og jafnframt á öðrum tímum. Ég vil sérstaklega draga fram að yfirráðamenn um 650 jarða í landinu hafa gert samninga um nytjaskógrækt. Það er sennilega búið að planta í u.þ.b. helming landsins sem búið er að taka frá í þessu skyni, búið að leggja vinnu í að skipuleggja þannig að þarna eru mikil tækifæri.

Síðan vil ég bara draga fram að ég er mjög ánægð með styrkinn til grisjunar sem getur skapað atvinnu og ný verðmæti en hvet líka til þess að við notum þessa tíma (Forseti hringir.) til að bæta aðstöðu í þjóðskógunum, göngustíga og skiltagerð.