150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

aukin skógrækt.

785. mál
[18:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ágætu svör og jákvæðni gagnvart spurningum mínum. Ég er reyndar með nokkrar athugasemdir. Ég ætla að tala um kolefnisjöfnun sem ég gerði ekki í minni fyrri ræðu. Nú leita menn allra leiða til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir áhrif þeirra á loftslag á hnettinum að sögn. Ekki ætla ég að gera lítið úr þeirri viðleitni, alls ekki, en það augljósa fyrir okkur Íslendinga er vitaskuld að kolefnisjafna allan okkar útblástur með því að láta trén um að binda þessi efni í arðbærum viði. Ræktun skóga er mikilvægasta og skilvirkasta náttúrulega aðferðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka til kolefnisbindingar. Þar eigum við að nota sem mest af þeim trjátegundum sem binda mest.

Hæstv. ráðherra talar ítrekað um birki. Að meðaltali bindur ræktaður íslenskur skógur um 10 tonn af kolefni á hektara per ár hér á landi á meðan góður birkiskógur bindur í besta falli 3 tonn. Asparskógur getur bundið allt að 23 tonn á hverjum hektara á ári. Hvað er augljósara? Það þarf ekki nema 2% á landinu til að binda allt kolefni sem við losum. Eftir hverju eru menn að bíða? Ég er kannski ekki að tala um að fara í þetta á augabragði, en eftir hverju eru menn að bíða? Eru menn að bíða eftir því að þurfa að kaupa upp rándýrar losunarheimildir eftir örfá ár? Ætla þeir að bíða eftir að birkið sjái um þetta? Ég hef ekkert á móti birki, birkiskógarnir okkar eru fallegir, en til þess að uppfylla samningsskyldur okkar samkvæmt Parísarsamningnum þurfum við að binda kolefni. Við ætlum ekki að fara að borga og kaupa (Forseti hringir.) losunarheimildir eftir örfá ár dýrum dómum þegar við erum í öllum færum með að binda allt okkar kolefni sjálf hér á landi. Förum að byrja á því.