150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

urðun úrgangs.

787. mál
[18:13]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Karli Gauta Hjaltasyni fyrir fyrirspurnina og fyrir að vekja máls á urðun og meðhöndlun úrgangs á þinginu. Fyrri spurning hv. þingmanns var um hvaða áform ráðherra hefði um aðgerðir til að minnka þann úrgang sem urðaður er ár hvert hér á landi.

Árið 2018 voru urðuð hér á landi rúmlega 216.000 tonn af úrgangi. Það var svipað magn og urðað var á hverju ári næstu þrjú árin á undan og þýðir að tæplega 17% af öllum úrgangi sem féll til það ár fóru til urðunar. Það er mjög mikilvægt að bregðast við stöðunni því að urðun og önnur förgun úrgangs er lakasti kosturinn sem við höfum þegar kemur að meðhöndlun úrgangs.

Kannski má nefna tvennt í því samhengi sérstaklega. Það að urða er slæm nýting á þeim náttúruauðlindum sem fóru í framleiðslu viðkomandi efnis eða hlutar áður en hann varð að úrgangi. Urðun úrgangs fylgir jafnframt losun gróðurhúsalofttegunda og losun mengunarefna í jarðveg og vatn, líkt og hv. þingmaður kom inn á í fyrirspurn sinni.

Það er hægt að draga úr myndun úrgangs, t.d. með því að minnka sóun og innleiða hið svokallaða hringrásarhagkerfi sem við vinnum að í ráðuneytinu. Þörf á urðun dregst saman ef lítill eða enginn úrgangur myndast. Þess vegna er það að draga úr honum það mikilvægasta sem við vinnum að. Ég vil nefna sérstaklega stefnu sem sett var í ráðuneytinu fyrir nokkrum árum og ber heitið Saman gegn sóun. Ég nefni líka aðgerðaáætlun í loftslagsmálum sem tekur á þessu. Í áætluninni Saman gegn sóun sem er áætlun um svokallaðar úrgangsforvarnir er áhersla lögð á að draga úr matarsóun, draga úr plastmengun og draga úr textílsóun. Allt eru þetta þættir sem við vinnum að ötullega núna í ráðuneytinu, sérstaklega hvað varðar matarsóun og plastmengun. Þá er jafnframt unnið að innleiðingu hringrásarhagkerfisins eins og ég kom inn á áðan, en í því er gert ráð fyrir því að sá úrgangur sem fellur til fari að sem stærstum hluta til endurvinnslu en ekki til urðunar.

Ég vil nefna tvennt í þessu samhengi. Til að draga úr urðun úrgangs og styðja við endurvinnslu vinnum við að því að leggja á urðunarskatt og innleiða skyldu til sérstakrar söfnunar á heimilisúrgangi og síðan að setja flokkunarskyldu á einstaklinga og lögaðila á heimilisúrgangi og rekstrarúrgangi, þar með talið byggingar- og niðurrifsúrgangi. Þetta eru auðvitað atriði sem skipta mjög miklu máli til að reyna að draga úr urðun og draga úr þeim hvötum að urða.

Síðan stendur til að setja sem meginreglu hreinlega bann við urðun á úrgangi sem skylt verður að safna sérstaklega, þar með talið lífrænum úrgangi, og styðja við nýsköpun á sviði endurvinnslu.

Núna stendur líka yfir greining á þörf fyrir rekstur sorpbrennslustöðva á Íslandi til að meta hvort sorpbrennslustöðvar eru nauðsynlegur hluti af framtíðarsýn um hringrásarhagkerfi eður ei. Við erum einnig að vinna að endurskoðun á landsáætlun um meðhöndlun úrgangs og vonast ég til að geta kynnt hana síðar á þessu ári.

Hin spurning hv. þingmanns var um hvernig hægt væri að minnka þann skaða sem urðun úrgangs leiðir af sér. Þá þarf fyrst og fremst að draga úr því magni úrgangs sem fer til urðunar sem segir sig kannski sjálft. Aðgerðir í þá veru nefndi ég í svari við fyrri spurningunni. Þegar úrgangur hefur hins vegar verið urðaður á urðunarstað er mikilvægt að rekstraraðili urðunarstaðarins beiti viðeigandi mengunarvörnum til að lágmarka það álag sem urðunin veldur á umhverfið. Í reglugerð um urðun úrgangs koma fram þau skilyrði um lágmarksmengunarvarnir sem viðhafa þarf til að reksturinn teljist lögmætur, eins og um söfnun hauggass, þéttingar í botni og hliðum staðarins o.s.frv. Þar er jafnframt mælt fyrir um innra eftirlit og vöktun rekstraraðila á mengun sem frá staðnum stafar og á mengunarálagi í umhverfi hans.

Síðan er auðvitað að í starfsleyfi viðkomandi urðunarstaðar ber að fjalla um þessi skilyrði og í gegnum opinbert eftirlit er fylgst með því að þeim sé fylgt eftir.