150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

urðun úrgangs.

787. mál
[18:21]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans ágætu svör og þeim þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn á það að taka upp gamla urðunarstaði en ég veit ekki hvort ég sé að heimta það. Við þurfum hins vegar að passa okkur á því að þessir staðir séu ekki á þeim stöðum þar sem grunnvatn getur mengast. Ef þeir eru það gamlir gætu svona aðgerðir komið til greina.

Ég fagna sérstaklega orðum hæstv. ráðherra þar sem hann talaði um að verið væri að kanna hagkvæmni þess að reisa sorpbrennslustöð. Ég minni þar á að ég hef tvisvar sinnum lagt fram þingsályktunartillögu um að reisa hér hátæknilega sorpbrennslustöð vegna þess að auðvitað eigum við að draga úr sorpinu, alveg sama hvort okkur líkar það betur eða verr. Ég tek undir með ráðherra í því. Við eigum að endurvinna sem mest af sorpinu og það er að aukast sem ég fagna sérstaklega. Við eigum að halda áfram á þeirri leið en það verður því miður alltaf eitthvað eftir sem er brennanlegt og þar erum við að tala um tugi þúsunda tonna, jafnvel yfir 100, sama hversu mikill árangur verður af endurvinnslu og samdrætti. Ég hef bent á miklu betri lausn, að vinna þennan úrgang, nýta úr honum varmann og orkuna enda eru núna slíkar brennslustöðvar orðnar það mengunarlitlar og hátæknilegar að það er mun umhverfisvænna en urðun og auðvitað miklu umhverfisvænna en að senda sorpið úr landi með öllum þeim kostnaði og útblæstri sem af hlýst.

Ég hvet ráðherra áfram í þeirri vinnu (Forseti hringir.) að huga að hagkvæmni þess að reisa slíka stöð hér.