150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

urðun úrgangs.

787. mál
[18:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Það er rétt hjá hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni, ekkert yfirlit er til um hvað er flokkað og um flokkunargerðir milli sveitarfélaga. Við erum að skoða hvernig megi safna slíkum upplýsingum á einn stað í samstarfi við landshlutasamtök sveitarfélaga um þróun slíkrar upplýsingaöflunar. Ég vonast til að eitthvert verkefni geti farið í gang um það á þessu ári.

Hv. þingmaður kom aðeins inn á ósamræmið í flokkun á milli sveitarfélaga. Það er nokkuð sem við þurfum að takast á við og ég hyggst kveða á um að samræma þurfi flokkun á milli sveitarfélaga í frumvarpi sem ég stefni á að koma með í þingið í haust ásamt því að setja á flokkunarskyldu eins og ég kom inn á í fyrra svari mínu.

Varðandi sorpbrennslurnar vil ég einfaldlega hafa upplýsingar um magnið sem við gætum átt von á að við þurfum að brenna þegar við verðum búin að uppfylla þær skyldur og þau markmið sem sett hafa verið varðandi endurvinnslu áður en að við tökum ákvarðanir um hvort og hvar eða með hvaða hætti við ráðumst í sorpbrennslustöðvar.

Ég vil að lokum koma aðeins inn á þá umræðu sem hér varð um gamla urðunarstaði út frá mengun jarðvegs og segja frá því hér að í ráðuneytinu hjá mér erum við að vinna að því nýmæli í íslensku regluverki að setja reglugerð um mengaðan jarðveg. Þar horfum við þá m.a. til þess að kortleggja og fá yfirlit yfir þá staði þar sem mengaður jarðvegur gæti verið. Þá mætti í framhaldinu byggja á því einhvers konar vinnu um það hvort ráðast þurfi í að takast á við þau mál eða ekki.