150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

reynsla af breyttu skipulagi heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

572. mál
[18:25]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi heilbrigðisþjónustu og það gleður mig að fá að eiga orðastað við hæstv. heilbrigðisráðherra um þau mál, aðallega þá breytingar á skipulagi heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi öllu, sem hófust fyrir meira en áratug. Þá var verið að fækka þeim sem við kölluðum sjúkrahús þá, eða a.m.k. sem slíkum. Verið var að breyta rekstri og þjónustu þessara stofnana, breyta þeim t.d. í öldrunarstofnanir eða eitthvað slíkt. Verið var að endurskipuleggja og stækka t.d. þjónustusvæði. Þetta snerist að hluta til um stærstu sjúkrahúsin utan Reykjavíkur sem þá voru, sem eru núna kallaðar heilbrigðisstofnanir, með ákveðnu umdæmi. Þetta eru staðir eins og sjúkrahúsin á Akranesi, Ísafirði, Akureyri, Neskaupstað, Selfossi og Reykjanesbæ, sem eru núna heilbrigðisstofnanir sem reka heilsugæslustöðvar á allstóru landsvæði, hjúkrunarheimili og samhæfa sjúkraflutninga með viðbragðsaðilum o.s.frv. Þetta er veruleg breyting.

Stundum hefur verið sagt að nærþjónusta hafi minnkað með þessu og auðvitað má segja það sumpart, jú. Jafnvel einfaldar skurðaðgerðir á tilteknum sjúkrahúsum, botnlangaaðgerðir, var ekki lengur hægt að gera þar o.s.frv., en um leið var verið að auka þjónustustigið á vissan hátt með fleiri og öflugri heilsugæslum, með betri nærþjónustu við aldraða o.s.frv. Við erum öll sammála um mikilvægi forvarna og með þessu var verið að efla þær að vissu marki. Eitt sem fylgir þessu er aukið álag á samgöngukerfið og þar með stöðugt ákall um umbætur á vegakerfinu sérstaklega, almenningssamgöngum jafnvel eða flugsamgöngum o.s.frv. vegna þess að þjónustusvæðin geta verið býsna stór og menn þurfa að fara alllangan veg til að fá þjónustu. En allt er það þekkt og það er eiginlega kominn tími til að spyrja, bæði út frá nýrri heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar, sem ég er í grundvallaratriðum sammála og fagnaði mjög, hver reynslan er af breyttu skipulagi eftir þessi allmörgu ár og langt breytingaferli sem hefur eflaust verið hnökrað á köflum. Hvað með gæðin? Hvað með nýtingu fjármuna? Hvað með þjónustustigið?

Þetta er stór málaflokkur og ég (Forseti hringir.) geri mér grein fyrir að það er erfitt að svara þessu öllu á stuttum tíma.