150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

reynsla af breyttu skipulagi heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

572. mál
[18:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson hefur beint til mín spurningu sem lýtur að breyttu skipulagi, gæðum þjónustu og aðgengi að henni eftir þau ár sem liðið hafa frá því að hafist var handa við að breyta skipulagi þjónustunnar utan höfuðborgarsvæðisins. Eins og hv. þingmaður fer réttilega yfir í spurningu sinni er þetta víðfeðmt og ekki þannig að við ljúkum þeirri umræðu hér. En ég vil samt þakka fyrir að gefa færi á því að skiptast aðeins á skoðunum um stöðuna eins og hún er núna.

Við horfum í raun á þá breytingu sem orðið hefur á íslensku samfélagi undanfarin ár og áratugi að þróun samfélagsins stefnir fólki í æ ríkari mæli í átt til þéttbýlisstaða. Breytingin í heilbrigðisvísindum færir hins vegar þjónustuna í átt til meiri sérhæfingar, samþjöppunar, en um leið hlýtur að aukast mikilvægi fyrir örugga grunnþjónustu í hverju byggðarlagi sem eru þá þessir grunnþættir; heilsugæsla, öldrunarþjónusta, endurhæfing, einfaldari sjúkrahúsþjónusta sem er sniðin að þörfum íbúanna og á að vera traust og örugg.

Skipulagsbreytingin um sameiningu heilbrigðisstofnana á sínum tíma miðaði að því að tryggja þá grunnþjónustu sem íbúarnir þurfa og jafnframt þá sérfræðiþjónustu sem hentar aðstæðum þar sem litlar og stakstæðar heilbrigðisstofnanir stóðu í raun veikar á þeim tímum. Þær þurftu að sameinast til að auðvelda aðlögun að breyttum aðstæðum en líka til að auka styrk svæðisins sem heildar og til að ná til sín meira sjálfsforræði, í raun meira sjálfstæði í héraði til þess að geta þróað þjónustuna á eigin forsendum. Það var hugsunin.

Sameiningarnar áttu sér stað í skrefum og ávallt að undangengnu mati og var það bæði faglegt og fjárhagslegt. Faglegi ávinningurinn felst fyrst og fremst í auknum stöðugleika í þjónustunni og auknum tækifærum til þróunar. Sameiningin auðveldaði það að nálgast jafnræði í þjónustu við íbúana, óháð búsetu, og jafnræði meðal starfsmanna og gefur færi á öflugri starfsmannaþjónustu. Þá sköpuðust frekar möguleikar til þátttöku í menntun og fagþjálfun fagstétta innan stofnunar sem getur verið lykill að nýliðun.

Heilsugæsluþjónusta er veitt í öllum heilbrigðisumdæmum og er skipulögð af heilbrigðisstofnun hvers umdæmis. Starfsstöðvar heilsugæslu eru víða og aðgengi að jafnaði nokkuð gott af landsbyggðinni. Þetta á þó því miður ekki við um strjálbýlustu svæðin þar sem erfitt hefur reynst að manna heilsugæslustöðvar, einkum hin síðari ár. Sameining heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni hefur skapað forsendur fyrir stjórnendur þeirra til að finna lausnir á þessum vanda sem best gagnast íbúunum með því að skipuleggja þjónustuna og tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu með því að hafa þá yfirsýn yfir svæðið í heild og geta ráðstafað björgum eftir því sem þarf.

Það er mitt mat að almennt hafi tekist vel til með þær sameiningar sem ráðist hefur verið í á síðastliðnum 20 árum. Fyrir liggur m.a. niðurstaða vinnuhóps frá 2012 sem þá var falið, af þáverandi ráðherra, að vinna úr skýrslu Boston Consulting Group og skilaði skýrslunni Sameining heilbrigðisstofnana og endurskipulagning. Þar kom fram að stofnanirnar hefðu eflst og þjónustan hefði styrkst auk þess sem þær hefðu orðið meira sjálfbjarga um eigin rekstur o.s.frv. Einnig hefur komið fram það mat forstjóra að sameining heilbrigðisstofnana á ákveðnum svæðum hafi aukið teymisvinnu og þverfaglegt samstarf. Það er almenn tilhneiging líka, einfaldlega í þróun heilbrigðisþjónustunnar, að það er mikill styrkur í stærra samstarfi og verkefni sem farið er í nýtast víðar.

Í sérstakri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæslu á landsbyggðinni frá því 2018 kemur fram að það sé mat stjórnenda heilbrigðisstofnana að sameining innan heilbrigðisumdæmanna hefði almennt gefist vel og hagræðing hafi orðið, einkum á sviði stjórnunar. Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá 2009 á Heilbrigðisstofnun Austurlands er tilgreint að nokkur árangur hafi náðst með sameiningu, m.a. hafi heilbrigðisþjónustan orðið fjölbreyttari, traustari o.s.frv.

Í nýsamþykktri heilbrigðisstefnu til ársins 2030 kemur fram að þróun norrænna heilbrigðiskerfa sé á þá leið að ráðist hefur verið í skipulagsbreytingar. Þjónustusvæði hafa verið stækkuð, þjónustan skipulögð sem fyrsta, annars og þriðja stigs þjónusta. Fyrsta stigið er heilsugæsla og þriðja stigið er hátæknisjúkrahús.

Vert er að skoða hvort ástæða sé til að ganga lengra í sömu átt með sameiningu þjónustuþátta, eins og ýmsar grannþjóðir gera, til að tryggja fullnægjandi og faglega mönnun starfsstöðva og skapa viðunandi starfsaðstöðu án þess þó að þjónustan skerðist. Þá erum við að tala um möguleika á því að samhæfa nærþjónustuna enn meira, mögulega í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu, félagsþjónustuna o.s.frv. Grunnhugsunin í heilbrigðisstefnu er að forstjóri heilbrigðisstofnunar á viðkomandi svæði sé jafnframt umdæmisstjóri heilbrigðisþjónustu á svæðinu og hafi með skipulag hennar að gera.