150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

reynsla af breyttu skipulagi heilbrigðisþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

572. mál
[18:34]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir mjög áhugaverða og mikilvæga umræðu. Það er rétt að heilbrigðisþjónustan í landinu er að breytast mikið og hún hefur breyst á undanförnum árum. Ég held að dómur sögunnar um það hvort rétt hafi verið að sameina heilbrigðisstofnanir eða ekki sé sá að það hafi verið laukrétt. Þar eru meira að segja nokkur tækifæri ónýtt sem hægt er að sækja í. Heilbrigðisumdæmin eru sjö og það þarf að gefa umdæmunum fleiri tækifæri til að spreyta sig.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í þessu sambandi af því að við erum að tala um heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins: Gerðar voru skipulagsbreytingar innan höfuðborgarsvæðisins í grunnþjónustunni, settir inn hvatar sem mörgum hugnaðist að gætu gengið, menn geta deilt um það. En hvað með landsbyggðina? Hvernig sér ráðherra fyrir sér að þetta geti þróast með sama hætti, (Forseti hringir.) einhverjum raunhæfum hætti, úti á landsbyggðinni, að settir séu hvatar (Forseti hringir.) sem hugnast hinu frábærlega vel menntaða fagfólki okkar?