150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

trúnaðarmaður fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimila.

605. mál
[18:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Mig langar að bera upp fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort hún telji ekki að fullt tilefni sé til að kanna möguleika á að sjúklingar með langvinna sjúkdóma og íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum hafi aðgang að trúnaðarmanni sem hægt væri að leita til með sín persónulegu mál og fylgja þeim eftir við þar til bæra aðila. Við þekkjum til hlutverks trúnaðarmanna á vinnustöðum. Þótt þessu tvennu sé ekki saman að jafna þá er hugsunin að mörgu leyti svipuð, þ.e. að geta treyst einhverjum sem hefði það hlutverk að vera tengiliður við heilbrigðiskerfið og vera ráðgefandi og fylgja eftir réttindum sjúklinga.

Margir einstaklingar búa við það að hafa langvinna sjúkdóma, sumir áratugum saman. Talið er að að meðaltali sé hver maður sem er 70 ára og eldri með tvö til þrjú langvinn heilsufarsvandamál. Vel er þekkt að oft þarf sá hópur að leita sér upplýsinga og ráðgjafar, sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður í meðferðarsambandi við þá getur átt í erfiðleikum með að veita eða eru jafnvel ekki til staðar þar sem sjúklingurinn býr. Þannig eru félagsráðgjafar ekki til reiðu nema á fáum heilsugæslustöðvum og svo geta læknar eða hjúkrunarfræðingar, sem eru í mestu meðferðarsambandi við sjúklinga, oft ekki gefið ráð sem snúa að öðrum meðferðarmöguleikum, t.d. hvernig á að snúa sér innan heilbrigðiskerfisins um endurgreiðslur o.fl.

Einnig getur viðkomandi þótt erfitt að bera upp persónuleg mál sem snúa beint að einhverjum sem annast hann í veikindum hans. Oft þurfa sjúklingar að leita sér upplýsinga eða ráðgjafar sem ekki felst í kvörtun og því ekki heppilegt að öll erindi endi á borði landlæknis. Áhyggjur geta snúið að samskiptum eða samskiptaleysi, skorti á upplýsingum eða hvert sé best að leita næst, svo að eitthvað sé nefnt. Einnig getur þetta verið erfitt á minni stöðum þar sem aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki kann að vera stopult, einkum aðgengi að sérfræðingum.

Á dvalar- og hjúkrunarheimilum getur oft verið erfitt að átta sig á réttindum fólks. Oft veigra heimilismenn og aðstandendur sér við að bera fram kvartanir sem hægt er að skilja sem aðfinnslur. Vegna sérstaks sambands heimilismanns við sína helstu meðferðaraðila getur oft verið erfitt að leita ráða hjá þeim.

Því er spurt hvort ráðherra telji þörf á að tilnefndur verði trúnaðarmaður fólks með langvinna sjúkdóma og íbúa á dvalar- og hjúkrunarheimilum eða talsmaður þessara hópa. Slíkur umboðsmaður gæti verið til ráðgjafar fyrir sjúklinga og heimilismenn á dvalar- og hjúkrunarstofnunum og sinnt því hlutverki sem ég hef nefnt hér að ofan. Einnig mætti hugsa sér að aðstandendur gætu leitað til slíks trúnaðarmanns eða umboðsmanns, einkum þegar um heilabilaða einstaklinga er að ræða eða fólk sem vegna veikinda eða erfiðrar stöðu á erfitt með að leita sér upplýsinga sjálft.